131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Greinargerð Seðlabanka um efnahagsmál.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af andvaraleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og tilburðum til að finna sífellt sökudólg annars staðar en í eigin ranni. Við höfum orðið vitni að þessari viðleitni ríkisstjórnarinnar alveg frá því í haust þar sem menn hafa yfirleitt verið að skjóta sendiboða hinna válegu tíðinda en neitað að horfast í augu við frumorsökina.

Upphaf greinargerðar Seðlabankans, kafla III um verðbólguvandann, er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á næstu árum mun reyna mjög á hina nýju skipan peningamála. Framkvæmdir við virkjanir og álbræðslur, sem til samans slaga að umfangi upp í þriðjung landsframleiðslu eins árs, fela í sér meira umrót í þjóðarbúskapnum en nokkurt annað land sem hagar peningastefnunni með svipuðum hætti hefur þurft að glíma við.“

Það er sennilega eitthvað auðveldara fyrir stjórnina og sérstaklega Framsóknarflokkinn að ræða um húsnæðismálin og leita skýringa á vandanum þar en í því sem Seðlabankinn hefur sem frumlag í umfjöllun sinni um þessi mál. Það er stóriðjustefnan og ruðningsáhrif hennar í íslensku efnahagslífi sem við erum að súpa seyðið af.