131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Flutningur starfa á landsbyggðina.

[15:16]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með málaflokk byggðamála. Fyrir fáeinum dögum bárust þau tíðindi að Íslandsbanki hefði ákveðið að færa nokkurn hluta af starfsemi sinni sem farið hefur fram í Reykjavík vestur á Ísafjörð. Um er að ræða ein tíu störf sem þar með yrðu unnin á Ísafirði. Á landsvæði þar sem atvinnutækifærum hefur því miður fækkað eru þetta mikil og góð tíðindi.

Það hefur vakið athygli að atvinnulífið er á margan hátt að sjá tækifærin á landsbyggðinni. Þetta er ekki eina dæmið sem við höfum um að fyrirtæki flytji starfsemi sína með þessum hætti einfaldlega vegna þess að menn sjá hagnaðarvon í því að geta treyst á stöðugt vinnuafl, fengið aðstöðu í ódýrara húsnæði og fengið lægri fasteignaskatt af eignum á landsbyggðinni eins og við þekkjum. Mig hefur satt að segja lengi undrað hversu atvinnulífið hefur verið seint að taka við sér í þessum efnum og sjá tækifærin í því að færa verkefni af þessu tagi út á land.

Þetta er auðvitað mál sem við höfum margoft rætt á Alþingi í tengslum við möguleika á því að færa opinber störf á landsbyggðina og margar skýrslur og álitsgerðir verið skrifaðar um það. Meðal annars rekur mig minni til þess að Iðntæknistofnun hafi skrifað mikla skýrslu fyrir fáeinum árum þar sem þeir töldu að með mjög litlum undirbúningi væri hægt að færa verkefni af svipuðum toga, um 1.500 störf, út á landsbyggðina.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún telji ekki tilefni til að dusta rykið af þessari gömlu skýrslu með það að markmiði að fylgja eftir góðu fordæmi einkarekstrarins og reyna að beita sér fyrir því, sem ráðherra sem fer með byggðamál, að hinar opinberu stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins fylgi fordæmi þessa fyrirtækis sem er að færa til störf vegna þess að það sér efnahagslegan (Forseti hringir.) hag í því, sér að það er skynsamlegt og betra að reka fyrirtækið með þeim hætti.