131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Flutningur starfa á landsbyggðina.

[15:20]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef sennilega ekki gert mig alveg nægilega vel skiljanlegan í upphafi. Það sem ég var einfaldlega að vekja athygli á er að stórfyrirtæki hefði séð sér fjárhagslegan hag í því að færa til störf af höfuðborgarsvæðinu út á land með þeim hætti að ekki þyrfti að koma til uppsagnar á höfuðborgarsvæðinu þannig að tilflutningurinn gæti átt sér stað í góðri sátt.

Ég minnti á að á sínum tíma hefði verið unnin gríðarlega mikil skýrsla af hálfu Iðntæknistofnunar, sem heyrir undir hæstv. ráðherra, þar sem m.a. voru settar fram tillögur, ábendingar og hugmyndir að því hvernig hægt væri að færa störf á grundvelli fjarvinnslu eða grundvelli einhverrar slíkrar starfsemi, sem við sjáum nú gerast hjá Íslandsbanka, út á land. Ég vildi nota tækifærið, vegna þess að einkafyrirtækin eru á margan hátt að skjóta ríkisfyrirtækjunum ref fyrir rass í þessum efnum, og vekja athygli á því að nú væri tilefni til þess að dusta rykið af þessari gömlu skýrslu og vekja athygli ríkisfyrirtækjanna á því að til þess að þau gætu sparað peninga og náð betri árangri væri ástæða (Forseti hringir.) til að fylgja fordæmi Íslandsbanka, nýta hugmyndir hans og færa verkefni út á land.