131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Nýting mannvirkja á varnarliðssvæðinu.

[15:23]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Döpur staða í atvinnumálum á Suðurnesjum hefur verið í brennidepli undanfarin missiri. Athyglisvert innlegg í umræðuna er áhugi Flugvirkjafélags Íslands fyrir nýjum og spennandi iðnaði á svæðinu. Um er að ræða viðhaldsiðnað á flugvélamarkaði þar sem almennt viðhald flugvéla, samsetning á flugvélahlutum og breytingar á farþegavélum í flutningavélar mundi heyra undir rekstur nýs félags. Jafnframt væri athyglisvert í þessu ljósi að kanna möguleika á viðhaldsverkefnum herflugvéla fyrir bæði varnarliðið og flugvélaflota NATO.

Í þessu tilliti hefur Flugvirkjafélag Íslands sýnt sérstakan áhuga á að sveitarfélög á Suðurnesjum fái flugskýli varnarliðsins nr. 885 til afnota og nýti sér í kjölfarið sterka stöðu sína í að leita krafta öflugra fagfjárfesta á flugvélamarkaði við að stofna félag utan um rekstur af þessu tagi. Umrætt mannvirki er orkufrekt og dýrt í rekstri en að sami skapi illa nýtt í dag. Því er ekki óhugsandi að varnarliðið sjái sér leik á borði og afhendi mannvirkið til sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Um mitt síðasta ár sendi Flugvirkjafélag Íslands hæstv. iðnaðarráðherra drög að hugmyndum sínum er varða atvinnutækifæri fyrir flugvirkja og aðra sérmenntaða iðnaðarmenn og eflingu á atvinnustarfsemi á Suðurnesjum.

Því legg ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hefur ráðherra kynnt sér hugmyndir Flugvirkjafélags Íslands um nýjan og spennandi flugvélaiðnað á Keflavíkurflugvelli?

2. Með hvaða hætti hefur hæstv. ráðherra brugðist við hugmyndum Flugvirkjafélags Íslands?

3. Er hæstv. ráðherra kunnugt um hvort fyrirhugað sé hjá íslenskum stjórnvöldum að leita á náðir varnarliðsins um nýtingu mannvirkja á Keflavíkurflugvelli til íslenskra fyrirtækja í ólíkum iðnaði? Ef svo er, með hvaða hætti og hvaða mannvirki helst?