131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:01]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sammála flutningsmanni um að þessar rannsóknir þurfi ekki að verða svo dýrar því að við erum að tala um að fara út í það m.a. að merkja laxaseiði með rafeindamerkjum og sleppa þeim, þau ganga síðan til sjávar og þar eru þau í a.m.k. eitt ár. Það eru oft töluvert mikil afföll af þessum seiðum af ýmsum orsökum, sem flutningsmaður fór m.a. í gegnum í framsögu sinni, og eins og ég sagði eru þessi merki dýr og endurheimturnar gætu orðið allslakar. Mig minnir að á sínum tíma, þegar menn voru að gera tilraunir með hafbeit hér við land, þætti gott að endurheimta í mesta lagi 3–4% af gönguseiðum laxins sem sleppt var í sjó og endurheimtuprósentan í þessum merkingum yrði varla miklu hærri, því miður, þannig að þarna yrðu strax mjög mikil afföll.

Síðan mætti hugsa sér einmitt vegna þess að hér er talað um að fara út í rannsóknir á afbrigðum laxa í sjó, hvort þetta fæli þá ekki í sér að við þyrftum að huga að því jafnvel að stunda rannsóknarveiðar á villtum laxi á hafi úti, reyna m.a. að veiða laxaseiði sem ganga frá landi og til sjávar. Ég veit að Norðmenn hafa gert slíkar rannsóknir á undanförnum árum, reynt að fanga gönguseiði í hafinu á milli Íslands og Noregs og það kallar á rannsóknarskip og dýrar rannsóknir. Annað væri að reyna að veiða eldri laxa í hafinu, t.d. til að rannsaka vöxt, fæðu og annað þess háttar. Það mundi sennilega kalla á veiðar með flotlínu í úthafinu og það yrði að sjálfsögðu mjög dýrt. (Gripið fram í.) Ég er ekki að reyna að draga úr gildi þessara rannsókna, alls ekki, ég vildi bara að þetta kæmi fram.