131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:06]

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð og þakka hv. 1. flutningsmanni, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir að hreyfa þessu máli á Alþingi og fyrir mjög ítarlega greinargerð og ræðu um þetta mikla mál. Í rauninni er litlu við það að bæta, svo nákvæmt sem þetta er, kannski helst þau tíðindi að hv. 1. flutningsmaður, sem er mesti sérfræðingur þjóðar vorrar í kynlífi laxa, skuli nú hafa fært sig um set og einblíni á aðra þætti í ævi laxfiska og er það vel.

Eins og fram kom hjá hv. flutningsmanni er laxveiði líklega ein af göfugustu og öflugustu stoðum íslenskrar ferðaþjónustu og afþreyingar, jafnt fyrir innlenda ferðamenn og ekki síður erlenda ferðamenn því að í kringum laxveiði og stangveiði sameina menn margt. Það er náttúruskoðun, góð tengsl við náttúruna og útivera, að ekki sé talað um félagsskapinn sem fylgir. Og eins og bent hefur verið á er þetta mjög byggðavæn grein því að bændur landsins hafa drjúgar tekjur af þessu og þau samfélög sem í kringum veiðiárnar eru og nægir þar að benda á þær breytingar sem orðið hafa í Rangánum eftir að menn hófu að sleppa þar fiski og rækta og náðu aðferð til þess að halda Rangánum laxgengum og síðan má segja að árlega komi tugir milljóna inn í samfélagið þar, fyrir utan þá ómældu gleði sem menn hafa af sjálfri veiðinni, enda er Norður-Atlantshafslaxinn einstakur á heimsvísu og er mikið sóttur.

Rannsóknir á laxi, á högum laxins í fersku vatni eru miklar. Við vitum töluvert um hrygningar, um seiðabúskapinn og vöxt og þroska seiðanna í ánum. Með öðrum orðum: Við þekkjum vatnsbúskapinn og lífshætti laxfiska í fersku vatni þó að vissulega megi skoða þar ýmsa þætti, svo sem eins og fikt manna við klak og sleppingar þar sem menn kunna að vera að blanda saman ólíkum stofnun innan hvers veiðisvæðis og ársvæðis, og hef ég sjálfur ákveðnar efasemdir um þær aðferðir sem gjarnan eru notaðar þar. En það er kannski ekki það sem hér er til umræðu því að þó að þekking okkar sé töluverð, eins og fram hefur komið og er rakið í greinargerð, á högum laxfiska í fersku vatni þá er þekking okkar á högum þeirra sömu fiska þegar til hafs er komið afskaplega takmörkuð og lítil.

Við þekkjum það, áhugamenn um stangveiði, að þegar sól fer að rísa aftur um þetta leyti árs, þegar menn fara að spá í veiðihorfur í ánum komandi sumar, þá eru menn auðvitað bjartsýnir og vitna í góðan seiðabúskap, að seiði hafi komist vel til sjávar og þar fram eftir götunum og væntingar miklar, en síðan verða vonbrigðin oft mikil því að þrátt fyrir að öll skilyrði í ánum hafi verið hin bestu skilar fiskurinn sér ekki eins og menn höfðu vonast til. Hvers vegna? Það vitum við ekki og út á það gengur einmitt tillagan og því ber að fagna henni. Við vitum sem sagt lítið um það sem gerist í sjónum

Við vitum t.d. ekki hvaða áhrif hitastig í sjó hefur á hegðan lax í sjónum og hvaða áhrif straumar hafa. Hvað með fæðu laxfiska í sjónum og almennt um útbreiðslu þeirra, hversu langt fara þeir út frá árósi? Það eru ýmsar tilgátur og kenningar um það en menn vita afskaplega lítið, m.a. vegna þess að tækni til þess að rannsaka hefur ekki verið til staðar og er sannarlega tímabært að leggja í slíkar rannsóknir, enda opnar hin nýja tækni frá Stjörnuodda gífurlega mikla möguleika. Með því að auka þær rannsóknir og fá betri heildarmynd af æviskeiði laxins rennum við stoðum undir þá náttúruperlu sem laxfiskar auðvitað eru. Við erum hugsanlega að renna stoðum undir enn betri veiði og jafnframt verndun á þessari mikilvægu tegund. Þetta hefur með efnahag að gera því þetta er drjúgur hluti af ferðaþjónustu okkar, þetta er auðlind, þetta er byggðavænt fyrir utan alla þá ómældu ánægju sem stangveiði veitir þúsundum áhugasamra veiðimanna sem stunda þessa íþrótt á hverju sumri.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, enda óþarfi, heldur lýsa einungis yfir stuðningi við málið. Hv. 1. flutningsmaður beindi því til hæstv. landbúnaðarráðherra að þetta væri landbúnaðarmál sem mun vera stjórnskipunarlega rétt og veit ég ekki betur en hæstv. landbúnaðarráðherra sé mikill stuðningsmaður þess og mun sjálfsagt greina frá því í ræðu sem ég býst við að hann haldi hér, en ég lýsi yfir stuðningi við hinar merku rannsóknir sem hér er fjallað um.