131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt að vona að hæstv. ráðherra hafi verið að greina frá staðreyndum, en ég var líka að greina frá staðreyndum, tölulegum staðreyndum, m.a. um fjárframlög til Veiðimálastofnunar og þeim gríðarlega miklu tekjum sem greinin gefur af sér, grein sem ég hygg að við höfum um langa hríð vanmetið mjög og grein sem ég er alveg sannfærður um að á eftir að skipta mjög miklu máli fyrir Íslendinga í framtíðinni, m.a. þegar við seljum landið okkar sem ferðamannaland. Ég veit að hæstv. landbúnaðarráðherra er mér sammála í þessu.

Mig langar enn og aftur að árétta spurningu mína um löggjöfina varðandi Fiskræktarsjóð, en hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu: Megum við sem sitjum á hinu háa Alþingi eiga von á því að hæstv. ráðherra mæli fyrir frumvarpinu enn á ný á þessu þingi í vetur?

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að ég vorkenni orkufyrirtækjunum ekkert þó þau séu látin greiða sérstakan skatt sem standa skuli straum af rannsóknum á ferskvatnsfiskum og jafnvel ræktunaraðgerðum. Það er hið besta mál. Þeim er engin vorkunn að því. Orkufyrirtækin hafa skemmt mikið út frá sér í laxveiðiám víða um land. Það er enginn vafi á því og má virkilega taka þar til hendinni og bæta úr mörgu. Ég vil nota tækifærið og nefna eitt mál sem er mér hjartans mál og er virkjun ein sem er í kjördæmi okkar beggja, mínu og hæstv. landbúnaðarráðherra, það er Steingrímsvirkjunin í Sogi sem ég tel að ætti að fjarlægja hið fyrsta svo endurreisa mætti urriðastofninn sem var þar einu sinni og var heimsfrægur. Hv. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er náttúrlega mestur sérfræðingur um hann, enda hefur hann skrifað bók um þann merka stofn.