131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:54]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á að lýsa mikilli ánægju með þær umræður sem hafa farið fram á þessum eftirmiðdegi um laxastofna og líka urriðastofn einn mjög merkilegan hér á landi. Þetta hafa verið góðar og málefnalegar umræður og margt athyglisvert og fréttnæmt hefur komið í ljós.

Við ræðum hér um tillögu til þingsályktunar frá þingmönnum Samfylkingarinnar um rannsóknir á afdrifum laxa í sjó. Það hefur verið ljóst um margra ára skeið að það væri þörf á að gera verulegt átak í rannsóknum á þessu, þ.e. afdrifum og lífslíkum laxa í sjó. Við vitum allt of lítið um það sem gerist á æviferli laxa eftir að þeir ganga til sjávar sem gönguseiði og þar til þeir koma aftur til baka eftir eins eða tveggja ára dvöl í sjó. Það er alveg augljóst að það sem gerist á þessum tíma, meðan á vistinni í sjónum stendur, hefur úrslitaáhrif á laxgengd í árnar okkar á hverju sumri. Það hefur að sjálfsögðu mjög mikil efnahagsleg áhrif því að það er stóriðja hér á landi, svo vægt sé til orða tekið, að selja veiðileyfi í laxveiðiár.

Mig langar til enn og aftur að minna á merka skýrslu sem gerð var í fyrra af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, reyndar átti Veiðimálastofnun þar einnig hlut að máli. Það er merkileg skýrsla sem ég hvet alla sem áhuga hafa á þessu máli til að kynna sér. Hún fjallaði einmitt um efnahagsleg áhrif af lax- og silungsveiðum á Íslandi. Þar kom í ljós að veiðarnar skila árlega hátt í 10 milljarða kr. veltu í þjóðarbúið. Það munar svo sannarlega um minna. Talið er að þetta allt á bilinu 55–60 þúsund manns stundi slíkar veiðar á hverju ári sér til ánægju og yndisauka og nokkur þúsund erlendra ferðamanna komi árlega til landsins til að stunda einkum laxveiðar. Þeir ferðamenn eru yfirleitt mjög vel fjáðir og skilja eftir sig miklar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri. Af veiðunum er því bæði mikil atvinnusköpun og mikil verðmætasköpun. Í raun er enginn vafi á að þarna er enn hægt að sækja fram og skapa fleiri tækifæri í ferðamennsku. Við skulum ekki gleyma því að þau tækifæri eru líka í tengslum við landbúnað, því það eru jú bændur þessa lands sem sitja á veiðiréttinum í fallvötnum og vötnum. Bændur hafa borið gæfu til að varðveita eignar- og nýtingarréttinn á þessum auðlindum og það er enginn vafi á að það mikla gæfuspor, sem stigið var fyrir mörgum áratugum, þegar lax- og silungsveiðilögin voru fyrst samþykkt, árið 1930 ef ég man rétt og er mjög merkileg löggjöf sem á hvergi sína hliðstæðu í veröldinni, hefur orðið sveitum landsins til mikils framdráttar.

Af því að hæstv. landbúnaðarráðherra er viðstaddur umræðuna þá langar mig til að minna á að hann var í merkilegu viðtali í gær á Rás 2 þar sem fjallað var um að menn væru að hugsa um að byggja reiðhallir víða um land. Hann sagði í viðtalinu að á bilinu 30–40 þúsund Íslendingar færu á hestbak árlega. Þeir eru færri en þeir sem stunda lax- og silungsveiðar sér til heilsubótar og afþreyingar, miklu færri. Það virtist ekki standa í ráðherranum að ríkið ætti að hafa aðkomu að því að byggja reiðhallir víða um land þar sem stykkið kostar í kringum 100 millj. kr. Það væri kannski gustukaverk hjá hæstv. ráðherra að hugleiða hvort ekki væri ástæða til að ríkið sinnti því betur að veita peninga til rannsókna á þessu sviði og á fiskirækt, m.a. til að gera fleiri Íslendingum kleift að stunda lax- og silungsveiðar þar sem þær eru svo vinsælar, jafnvel vinsælli en hestamennskan. Menn mega þó ekki misskilja orð mín þannig að ég ætli á nokkurn hátt að gera lítið úr hestamennsku á landinu, langt í frá.

Þessi þingsályktunartillaga tekur á mörgum þáttum. Ég benti á það áðan í andsvari mínu að mér þætti hún á margan hátt nokkuð óljós. Ég tel að það hefði mátt fara yfir hana og skerpa svolítið á henni, breyta svolítið textanum, gera hana markvissari og hnitmiðaðri.

Ég hef lúmskan grun um að þessi þingsályktunartillaga sem var flutt hér í fyrra líka hafi upphaflega verið samin árið 2003. Síðan hefur margt gerst, m.a. eins og hæstv. ráðherra benti á hér áðan að Veiðimálastofnun er þegar farin að sinna þessum rannsóknum, þótt kannski af vanefnum sé.

Orð eru þó til alls fyrst. Hér eru ákveðin atriði sem hefði mátt sinna og það fyrir löngu síðan, m.a. það sem nefnt er hér mælingar á umhverfisþáttum. Þær hafa að sjálfsögðu verið framkvæmdar en ég hygg að þetta mætti gera með markvissari hætti, t.d. með því að skrá sjávarhita víða í kringum landið á vorin þegar seiðin eru að ganga til sjávar og líka yfir sumartímann þegar laxinn kemur til baka utan af hafi.

Annað er hér, beitarsvæði í sjó, sem við hefðum kannski líka mátt gera eitthvað til að stunda markvissari rannsóknir á, m.a. með því að stunda tilraunaveiðar á laxi í hafinu. Það hefði getað aflað okkur dýrmætra upplýsinga sem síðan hefðu getað nýst okkur í því starfi að byggja upp veiði í ánum.

Laxa- og fjölstofnarannsóknir eru nefndar til sem einnig skipta miklu máli, m.a. afrán á laxi fyrir tilstilli sels og annarra rándýra. Þetta þarf allt saman að rannsaka betur.

Mig langar svo aðeins til að notfæra mér síðustu mínúturnar til að nefna það sem rætt hefur verið um hér, þ.e. að endurreisa urriðastofninn í Þingvallavatni. Hann er mjög merkilegur fiskstofn, einn sá merkasti hér á landi að ég hygg. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að minn þingflokkur, þingflokkur Frjálslynda flokksins, væri mjög jákvæður ef farið væri út í þá aðgerð að fjarlægja stífluna í Steingrímsstöð. Þessi stífla er alger tímaskekkja. Ég benti margoft á það í ræðum á hinu háa Alþingi í fyrra. Hún er alger tímaskekkja og hefði aldrei verið leyfð í dag ef sótt hefði verið um. Reyndar efast ég um að nokkrum manni hefði dottið í hug að sækja um að gera slíka virkjun nú á dögum. Þessi virkjun olli miklu tjóni á þessum verðmæta fiskstofni. Að sjálfsögðu vissu menn ekki hvað þeir voru að gera þá en við vitum svo miklu betur í dag og ég hygg að það ætti að vera tiltölulega einföld aðgerð að fjarlægja stífluna og stuðla þannig að því að þessi merki fiskstofn nái vopnum sínum á nýjan leik. Ég er sannfærður um að hann mundi til lengri tíma litið gefa af sér langtum meiri tekjur en virkjunin gerir í dag. Virkjunin er mjög lítil og skilar litlu en urriðinn í Þingvallavatni getur skilað okkur gríðarlegum auðæfum.