131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:03]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara áminna hv. þingmann um að fara ekki að beita hestamennskunni gegn stangveiðinni. Þegar við hugsum um þetta hvort tveggja eru þetta kannski einhverjar mestu og dýrmætustu auðlindir sem beina athygli heimsins til Íslands (DrH: Fer vel saman.) og fer á margan hátt vel saman eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir bendir á í frammíkalli.

Hesturinn dregur mikla athygli að landinu og mikla peninga, mikinn ferðamannastraum. Hann er auðlind og afurð sem við seljum út um allan heim, er íslenskastur alls sem íslenskt er og ræktaður í mörgum heimsálfum og tugum landa. Alltaf Íslendingur og nefndur sínu nafni. Hann er mjög dýrmætur og þetta sem ég var að fara þarna yfir með reiðhöllina gæti eflt hestinn.

Laxinn, þessi konungur Norður-Atlantshafsins, er auðvitað mikil auðlind líka. Það er merkilegt að hugsa til þess að hver einasta á hefur sinn sérstaka stofn. Hver tegund er með sínu nefi, með sitt gen, dýrmæt afurð í tómstundagamni Íslendinga og gefur Íslendingum nýtt samband, og önnur tengsl við náttúruna en hann kynnist á nokkru öðru sviði. Ég dreg ekki úr mikilvægi þess að horfa til þess atvinnuvegar sem auðvitað er mjög öflugur. Við skulum ekki, hv. þingmaður, egna þessu hvoru gegn öðru heldur átta okkur á því að þetta er eitthvert mesta dýrmætið sem við eigum; stangveiðin í íslenskum ám og vötnum og svo íslenski hesturinn sem hefur sigrað (Forseti hringir.) hundruð þúsunda manna um víða veröld. Ísland er elskað vegna hans.