131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:09]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að íslenski hesturinn er mjög merkilegur og allt gott um það að segja. Mig langar þá enn og aftur til að hnykkja á því að íslenskir stofnar ferskvatnsfiska, bæði lax og silungs, eru mjög merkilegir og væru mjög áhugaverðir fyrir marga erlendis. Mjög margir stunda stangveiðar erlendis og fiskstofnarnir okkar eru afskaplega merkilegir og eru hér í einstakri náttúru, einstakri umgjörð. Þarna er gríðarleg auðlind sem ég hygg að geti gefið okkur færi til mikillar sóknar í framtíðinni.

Ég var á fundi í síðustu viku austur á Kirkjubæjarklaustri. Þar var einnig hæstv. landbúnaðarráðherra. Þar voru heimamenn að velta fyrir sér framtíðinni, hvað þeir eigi til bragðs að taka til að reyna að skapa sér atvinnu. Þar kom sterklega í ljós að þeir ráða einmitt yfir auðlind sem er afskaplega merkileg og mjög dýrmæt, sjóbirtingsstofninn, sem þeir sjá mikil sóknarfæri í til framtíðar. Það er hægt að selja þessa stofna og náttúruna sem þeir lifa í með ýmsum hætti. Það er hægt að selja aðgang að veiði en það er líka hægt að koma upp söfnum. Í Noregi eru t.d. mjög vinsælir ferðamannastaðir við stórar laxveiðiár sem eiga sér merka sögu og þar hafa menn komið upp aðstöðu þar sem hægt er að ganga inn og horfa á fiskinn í sínu eðlilega umhverfi, í vatninu. Svona söfn væri hægt að setja upp við okkar bestu lax- og silungsveiðiár eða vötnin okkar, t.d. í Þingvallavatni og sýna þar bæði bleikju og urriða í sínu rétta umhverfi. Við skulum ekki gleyma því að það sem gerir okkar stofna einmitt svo einstaka er það að íslensk náttúra er tiltölulega óspillt, a.m.k. enn sem komið er. Þessir stofnar hafa haldið sínu þótt þeir hafi verið á miklu undanhaldi í löndunum í kringum okkur. Þetta hlýtur að sjálfsögðu að gefa okkur færi til mikillar sóknar.