131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:22]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessa tillögu. Hann er að sjálfsögðu sá mesti sérfræðingur sem við eigum í þessum málum. Ég tel mjög mikilvægt að það sé einmitt rannsakað hvað veldur afföllum laxa í sjó. Auðvitað hefur það verið áhyggjuefni margra sem eru að sleppa seiðum í ár landsins hvað það er í rauninni lítil endurheimta sem kemur til baka. Laxveiðin skiptir miklu máli fyrir sveitir landsins og líka fyrir gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Eins og var farið yfir áðan eru miklir fjármunir í húfi. Þetta er mikið atvinnumál, mikið byggðamál og mikið vægi þess að laxveiðiárnar fái að blómstra. Ísland er það land sem er líklegast eina landið í dag sem hefur upp á eins marga kosti að bjóða hvað varðar laxveiði.

Ég þakka hv. þingmanni Össuri Skarphéðinssyni fyrir að flytja þetta mál og hlakka til að taka það til meðferðar í hv. landbúnaðarnefnd.