131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

59. mál
[17:33]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli eina ferðina enn fyrir tillögu til þingsályktunar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Það má eiginlega segja að meðan ég hef það tækifæri að mæla fyrir þessari tillögu hér í pontu á Alþingi Íslendinga og meðan ég enn tel þörf vera fyrir tillöguna þá mun ég mæla fyrir henni. Þetta er því eflaust ekki í seinasta sinn sem ég kem hér og ræði málefni Þjórsárvera og mögulega stækkun friðlandsins.

Tillagan gerir eins og áður ráð fyrir því að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Einnig að áætlun verði gerð um friðun Þjórsár frá mörkum friðlandsins í Þjórsárverum til suðurs að Sultartangalóni.

Hugmynd þessi er í samræmi við þær hugmyndir sem hreyft hefur verið af áhugahópi um verndun Þjórsárvera og hafa tillögur hans verið hafðar til hliðsjónar við tillögugerðina. Ég hef talað fyrir þessari tillögu þrisvar sinnum áður, en flutningsmenn hennar eru auk mín allir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Tillagan hefur aldrei fengist útrædd, ekki enn sem komið er, en hún hefur þó verið send til umsagnar nokkurs fjölda aðila sem tengjast málinu og ég verð að segja að hún hefur hlotið afar jákvæðar undirtektir. Af þeim sem gáfu umsögn um tillöguna á sínum tíma voru það eingöngu Landsvirkjun og hreppsnefnd Ásahrepps sem lögðust gegn henni.

Frá því að tillagan var upphaflega lögð fram hefur baráttan um Þjórsárver magnast, hún hefur staðið sleitulaust og hún stendur enn. Í greinargerð með tillögunni er getið um hvernig þessi saga, baráttusaga, hefur þróast allt frá árinu 1972 þegar haldinn var í Árnesi fjölmennur sveitarfundur Gnúpverja sem lagðist eindregið gegn öllum hugmyndum um framkvæmdir á Þjórsárverasvæðinu, frekari framkvæmdum en þá var í raun og veru byrjað að hreyfa.

Þá má segja að Landsvirkjun hafi allt frá þessum tíma verið að draga í land með ýtrustu hugmyndir. Núna standa málin þannig, svo ég geri langa sögu stutta, að í auglýsingu er aðalskipulag fyrir svæðið, þ.e. aðalskipulag Gnúpverjahrepps, og sömuleiðis eru í auglýsingu breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins. Báðar þessar skipulagstillögur gera ráð fyrir lóni í Þjórsárverum sem yrði 567,5 m yfir sjávarmáli og er það heldur lægra en hugmyndirnar voru þegar ég talaði síðast fyrir tillögunni.

Frestur til þess að gera athugasemdir við þessar skipulagstillögur er til 9. mars þannig að enn vitum við ekki hversu margar athugasemdir berast en ég er sannfærð um að það verða margir sem leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þessum efnum og koma til með að andæfa því að af þessum framkvæmdum verði.

Þeim sem láta sér annt um Þjórsárverin finnst nóg að gert í þessum efnum, nóg búið að gera, framkvæma í Þjórsá, og mál að linni, mál að við fáum friðlandið stækkað þannig að náttúruleg mörk þess fái notið verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Þegar þessar aðalskipulagstillögur og svæðisskipulagstillagan er skoðuð stingur auðvitað í augun að það eru ákveðnir þættir sem ekki er tekið nægilegt tillit til að mínu mati og þá má nefna rammaáætlun, náttúruverndaráætlun og heimsminjaskrárhugmyndir, því að það eru vissulega uppi hugmyndir um að Þjórsárver geti sómt sér vel á lista UNESCO yfir heimsminjar.

Svo þarf ekki að orðlengja um það að ekki virðist vera sérstök þörf fyrir þá orku sem kæmi úr hugmyndunum um Norðlingaölduveitu og að lokum má auðvitað nefna að setlónin sem gert er ráð fyrir að framkvæmdin útheimti eru þeirrar náttúru að í mínum huga, og hef ég gert grein fyrir því hér aður, þyrftu þau að fara í sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum enda eru þau það stór að þau lenda innan ramma viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum.

En ég vil í þessari framsögu minni, virðulegi forseti, geta um tvær skýrslur sem komu út síðasta sumar, skýrslur sem skrifaðar voru um gildi Þjórsárverasvæðisins, skýrslur sem gert er ráð fyrir að geti verið lóð á vogarskálar þeirrar umræðu sem nú stendur um endanlega verndun þess sem eftir er. Þessar skýrslur eru unnar að frumkvæði Landverndar af tveimur afar virtum sérfræðingum, erlendum, sem þekkja vel til þessara svæða, en það eru þeir Roger Croft og Jack Ives sem báðir hafa kynnt sér Þjórsárver mjög vel. Skýrslur þeirra eru nokkuð samhljóma og það vekur einmitt athygli þegar þær eru lesnar að þeir skoðuðu verin á sumardögum 2004. Þeir voru ekki saman í ferðum sínum þannig að þeir sáu í raun og veru ólíka hluti en niðurstöður skýrslna þeirra eru, eins og ég segi, afar samhljóma.

Í fyrsta lagi staðfesta skýrslurnar það mat sem áður hefur komið fram að verndargildi Þjórsárvera er afar hátt bæði á landsvísu og alþjóðlega vísu. Ég get þess hér að þessar skýrslur má báðar finna á heimasíðu áhugahóps um verndun Þjórsárvera, en Jack Ives segir í skýrslu sinni, með leyfi forseta:

„Að mínu mati er það staðsetning votlendissvæðisins í eyðimörk á miðhálendi Íslands, við suðurenda Hofsjökuls, sem gefur svæðinu afar óvenjulega náttúrulega umgjörð þar sem fram koma sterkar andstæður: svartir eyðimerkursandar, jökull, freðmýrar, gróskumikill grænn svörður og fjallahringur í fjarska. Mér kemur til hugar samanburður við svæði á jörðinni sem eru fræg vegna landslags: hlutar Tíbetsléttunnar, Sagarmatha-þjóðgarðurinn, ísi þakin eldfjöll í Andesfjallgarðinum, norðausturhluti Baffineyjar og þjóðgarðurinn í Yellowstone í Bandaríkjunum.“

Roger Croft segir í skýrslu sinni, með leyfi forseta:

„Svæðið allt frá Hofsjökli að þeim stað þar sem Þjórsá fellur fram úr gljúfrunum er í alþjóðlegu samhengi afar mikilvægt, bæði vegna lífríkis og þeirrar landmótunar sem það endurspeglar. Við þetta bætist útsýni og upplifun fegurðar svæðisins. Hvort sem flogið er yfir svæðið, gengið um votlendið og vaðið yfir árnar eða litið yfir svæðið frá aðliggjandi hæðum eins og Biskupaþúfu, blasir við baksviðið: íshettan, skriðjöklarnir, tindarnir, hæðir í fjarska, vatnsmikil áin, sandeyrar, votlendi og tjarnir. Þetta samspil mótar landslag sem er sjaldséð á jörðinni og örugglega einstakt á Íslandi.“

Þannig geta þessir tveir heiðursmenn í skýrslum sínum um það álit Umhverfisstofnunar sem kemur fram í náttúruverndaráætluninni miklu, þ.e. ekki þeirri sem Alþingi samþykkti heldur stóru, þykku bókinni sem liggur að baki samþykkt Alþingis, að núverandi mörk friðlandsins séu í sjálfu sér ekki hin eiginlegu mörk eða hin náttúrulegu eða landfræðilegu mörk þess og það sé eðlilegt að þessi mörk séu útvíkkuð og í náttúruverndaráætluninni er tillaga þar um en því miður náði hún ekki inn í þau svæði sem valin voru fyrir náttúruverndaráætlun umhverfisráðherra sem samþykkt var á Alþingi.

Það er mat þeirrar stofnunar, Umhverfisstofnunar, að núverandi mörk friðlandsins séu ófullnægjandi og þau endurspegli ekki verðmætin sem er að finna á svæðinu. Undir þetta sjónarmið taka bæði þeir Roger Croft Og Jack Ives. Sömuleiðis geta þeir um að fyrirhuguð mannvirki, og þá sérstaklega stífluskurðir og veitur undir jökli, komi til með að hafa afar neikvæð áhrif á náttúru og landslag.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, virðulegi forseti, telja báðir þessir heiðursmenn að svæðið geti komið til greina sem svæði á heimsminjaskrá UNESCO, verði því ekki raskað frekar og verði verndarsvæðið stækkað.

Um þetta segir í skýrslu Jack D. Ives, virðulegi forseti:

„Með tilliti til þess að ég hef starfað sem landmótunarfræðingur í meira en hálfa öld beini ég athyglinni að síðasta liðnum, landslaginu. Ég vísa til ferða minna um allan heim og legg áherslu á að þetta svæði sem markast af Kerlingarfjöllum, Hofsjökli og Þjórsárverum, séð frá hæðardragi suðaustan við Þjórsá (t.d. frá Sóleyjarhöfða) er eitt tignarlegasta og andlega mest örvandi landslag veraldar. Ég geri ráð fyrir því að ef mörk friðlandsins yrðu stækkuð þannig að þau næðu til Kerlingarfjalla, hluta aðliggjandi eyðisanda og alls Hofsjökuls, væri um að ræða svæði sem kæmi sterklega til greina til skráningar á heimsminjaskrá UNESCO.“

Og nú spyr ég, hæstv. forseti: Væri ekki ráð að setja öll fyrirhuguð framkvæmdaáform Landsvirkjunar í bið, stækka friðlandið út frá þeim tillögum sem hafa verið í umræðunni um það mál og sjá til þess að svæðið verði skráð og skoðað og skilgreint til þess að það geti orðið gjaldgengt á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna? Verði svo, verði Þjórsárver tekin inn sem gilt svæði á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, þori ég að fullyrða að það yrði meiri lyftistöng fyrir þjóðarhag þessa lands en nokkru sinni þau framkvæmdaáform sem Landsvirkjun hefur uppi. Þess vegna bið ég um að alþingismenn vitkist nú og leggi lið þeirri tillögu sem hér er talað fyrir í fjórða sinn, sjái til þess að friðlandsmörkin verði stækkuð og í framhaldinu getum við svo sótt um inn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Hér er um hjarta landsins að ræða, Íslands „hjartagull“, eins og Jack D. Ives segir í skýrslunni sinni, og ég held að þetta landsvæði sem þessi styrr hefur staðið um í áraraðir eigi það skilið að fá frið og Alþingi Íslendinga getur veitt þann frið.