131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

59. mál
[17:53]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Honum er málið kunnugt hafandi komið þarna upp eftir og þekkjandi svæðið. Ég tek undir það sem hann sagði. Ég hef sjálf komið upp eftir oftar en einu sinni og það er engu líkt. Þetta er ævintýraland og mjög mikið ævintýri að fá að horfa þarna yfir þó ekki sé annað, því eins og fram kom í máli hv. þingmanns er landið ekki auðvelt yfirferðar og verður þar af leiðandi aldrei neitt sérstakt ferðamannasvæði þannig lagað séð. Það er samt sem áður þeirrar náttúru að það að standa upp á Sóleyjarhöfða og horfa þar yfir er engu líkt. Þarna eru eyrarrósabreiðurnar hábleikar eins og töfrateppi í sandauðninni sem umlykur þessa merku gróðurvin. Þetta er engu líkt, þetta ævintýri.

Ég gat þess ekki í máli mínu áðan að ég óska eftir því að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað enn einu sinni til hv. umhverfisnefndar og síðari umr. Ég treysti því satt að segja, hæstv. forseti, um leið og ég þakka fyrir undirtektirnar sem ég gat um, að tillagan fái að lokum jákvæða afgreiðslu í umhverfisnefnd og Alþingi Íslendinga fái tækifæri til að greiða um hana atkvæði.