131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Vernd og sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni.

60. mál
[18:11]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er að upplifa minn annan vetur sem þingmaður á hinu háa Alþingi og þetta er í annað skipti sem ég tek til máls í ræðustól um þessa þingsályktunartillögu. Hún var einnig borin fram í fyrravetur, fór þá inn í sjávarútvegsnefnd og hvarf þar sjónum manna, sást hvorki tangur af henni né tetur þar til hún birtist á nýjan leik endurflutt hér í dag.

Þetta er að mínu viti ágæt tillaga sem ég styð heils hugar. Ég gerði það í fyrra og sú skoðun mín hefur ekkert breyst. Ég tel mjög mikilvægt að þessi svæði séu vernduð fyrir áníðslu togveiðarfæra, þessi svæði þar sem við vitum að þetta lífríki er, þ.e. kórallinn, því að þegar kórall er brotinn niður tekur mjög langan tíma að byggja hann upp aftur.

Það er alveg með ólíkindum hversu mikið léttlyndi og sinnuleysi stjórnvöld hafa sýnt í þessu máli. Hljóta ríkisstjórnin og hæstv. sjávarútvegsráðherra að bera þar á fulla ábyrgð. Það eru mörg ár síðan okkur varð ljóst að þessi svæði væru í hættu. Ég man eftir því mörg ár aftur í tímann að sjómenn voru að tala um að þeir lentu í kóral. Ég hef sjálfur tekið þátt í því um borð í rannsóknarskipum og líka í fiskiskipum að fá upp kóral með veiðarfærunum og aðrar lífverur einnig, t.d. það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kallaði ostakúlur sem eru ekki annað en kísilsvampar, en lífríki og lifandi verur engu að síður.

Það ætti fyrir löngu að vera búið að gera það sem menn hafa verið að gera á Íslandi á undanförnum missirum, eftir að fréttir fóru að berast af því, m.a. frá Noregi, að menn hefðu náð að mynda svona svæði og mönnum hefur orðið ljóst hvað væri í húfi. Menn hefðu átt að hefja þetta starf á Íslandi fyrir mörgum árum. Batnandi mönnum er þó að sjálfsögðu best að lifa og við vitum að þó nokkuð hefur verið unnið að því innan veggja Hafrannsóknastofnunar á undanförnum árum að afla upplýsinga um þau svæði þar sem þetta lífríki er á hafsbotninum. Við sjáum þess merki í þessari nýjustu útgáfu þingsályktunartillögunnar þar sem Hafrannsóknastofnun hefur veitt umsögn um og leggur með kort sem sýna þekkt svæði með kóröllum við Ísland samkvæmt upplýsingum frá sjómönnum. Sjómenn hafa vitað það í mörg herrans ár hvar þessi svæði eru. Þeir hafa jafnvel sótt í þessi svæði af ráðnum hug. Ég er ekki að segja að þeir hafi gert það af ásettu ráði, þ.e. ekki að brjóta niður kóralla. Menn hafa ekki vitað hvað þeir voru að gera, hafa ekki gert sér grein fyrir því tjóni sem þeir voru að vinna en hafa leitað á þessi svæði vegna þess að þau eru oft mjög rík af lífríki og á þeim er oft að finna fisk, til að mynda karfa, keilu og löngu. Um það vitum við. Myndir sem Norðmenn hafa tekið af hafsbotninum á svona kóralsvæðum sýna einmitt þessar fisktegundir. Þessir nytjastofnar virðast mjög sækja í þetta búsvæði. Það freistar að sjálfsögðu fiskimanna.

Það skiptir þó ekki máli hvað varðar það að friða þessi svæði. Það ber að friða þau fyrir togveiðarfærum. Látum vera þó að mönnum yrði áfram leyft að stunda veiðar á umræddum svæðum með t.d. línu. Það væri sök sér. Línan mundi ekki skemma þessi viðkvæmu búsvæði. Hún mundi ná fiskinum en okkur tækist að verja þau ef við bönnuðum togveiðar og það eigum við að sjálfsögðu að gera.

Mörg undanfarin ár eða áratugi, virðulegi forseti, hefur okkur Íslendinga skort tækjabúnað til að stunda rannsóknir og fara niður og mynda hafsbotninn á þessum svæðum en í dag höfum við yfir að ráða búnaði til að gera þetta. Við eigum núna fullkomið hafrannsóknarskip sem reyndar eyðir mestum hluta ársins bundið við bryggju sökum fjárskorts en engu að síður rannsóknarskips og um borð í því skipi, Árna Friðrikssyni RE, er að finna mæli, svokallaðan fjölgeislamæli sem unnt er að nota til að kortleggja hafsbotninn.

Þess ber einnig að geta að Landssamband ísl. útvegsmanna gaf í fyrrahaust myndavél til rannsókna á veiðarfærum og á hafsbotninum og að sjálfsögðu ber að þakka það góða framtak og hefði það mátt koma miklu fyrr. Það hlýtur hins vegar að valda áhyggjum að stjórnvöld virðast ekki geta nýtt sér gjafir frá útgerðarmönnum til að stunda hafrannsóknir hér við land, sennilega vegna nísku. Hafrannsóknarskipið, eins og ég sagði áðan, liggur bundið við bryggju stóran hluta ársins og fyrst svo er er vart þess að vænta að ríkisstjórnin tími heldur að nota þessa myndatökuvél og hún verði meira í orði en á borði eins og svo margt annað í tengslum við fiskveiðistjórn hér við land.

Nóg um það, virðulegi forseti. Ég vona að þingsályktunartillagan fái góða meðhöndlun í sjávarútvegsnefnd og beðið verði um almennilegar umsagnir við hana og hún verði afgreidd úr nefndinni fyrir þinglok. Hér er mjög þarft mál á ferðinni, mál sem ætti að sjálfsögðu fyrir löngu að hafa verið afgreitt frá hinu háa Alþingi. Það á sér forsögu allar götur til ársins 1998. En þetta mál á að sjálfsögðu að fá að fara í gegnum nefndina en því miður læðist að mér sá illi grunur að það verði svæft. Skylt er að geta þess að hér í salnum eru einungis tveir fulltrúar í sjávarútvegsnefnd, þ.e. sá sem hér stendur og hv. þm. Jóhann Ársælsson. Allir aðrir meðlimir sjávarútvegsnefndar virðast af einhverjum ástæðum ekki sjá sér fært að vera á þingfundi þegar þetta mjög svo mikilvæga mál er tekið fyrir. Hv. formaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, virðist vera víðs fjarri og að sjálfsögðu ekki frekar en fyrri daginn hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra séð sóma sinn í að vera viðstaddur í þingsal þegar mál eru tekin fyrir sem varða sjávarútveginn, þ.e. önnur mál en þau sem beinlínis varða hann sjálfan. Þetta ber að sjálfsögðu að harma. Það er ekki í fyrsta sinn sem maður neyðist til að gera það í sal hins háa Alþingis að nefna þá lítilsvirðingu sem stjórnarliðar sýna þinginu trekk í trekk en það er, eins og ég hef sagt, að koma á daginn enn eina ferðina, því miður, og segir mér að þetta mjög svo þarfa mál mun sennilega ekki sjást aftur fyrr en að ári liðnu.