131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:52]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir undirtektirnar við þetta mál en mig langaði í lokin á umræðunni að segja nokkur orð um sláturhúsin. Ég tel að hluti þess að vernda svæði sem hafa verið laus við riðu sé að sjá til þess að þar séu sérstök sláturhús þar sem fé af svæðinu verði slátrað. Annað eins hafa menn gert í landbúnaði og að sjá til þess að slík starfsemi geti gengið. Ég segi ekki fyrir fram að það geti ekki verið eitt hús á landinu sem sér um þetta. Það er út af fyrir sig alveg hægt að ganga forsvaranlega frá þeim hlutum en ég hef fyrirvara við að hægt sé að flytja fé frá austurhorni landsins og vestur eða öfugt. Mér finnst það bara of langt. Líklega verða menn að sætta sig við að þau verði tvö. Það gæti vissulega gengið að menn hefðu eitt hús til að slátra á suðvestursvæðinu, þ.e. fyrir Strandir og Snæfellsnes, en það væri þá sérhús sem sæi um þá slátrun. Að öðru leyti tel ég að aðrir séu betur færir, sérfræðingar á þessum sviðum, til að fara yfir þessi mál.

Mér hefur ekki þótt stefna í rétta átt með mál sláturhúsanna upp á síðkastið og ég tel ástæðu til að menn fari yfir það, taki til hjá sér og horfist í augu við að þetta er ekki rétta leiðin til að vinna bug á þessum illvíga sjúkdómi, að keyra fé um allar koppagrundir og slátra því á einu landshorninu, að flytja það á bílum sem hafa verið notaðir til að flytja fé af riðusvæðum. Ég gef ekki mikið fyrir það að menn hafi uppi einhvers konar reglur um þrifnað til að verjast sjúkdómi sem er svo illvígur sem raun ber vitni. Ég held að menn þurfi að fara löngu leiðina hvað þetta varðar og nota alla möguleika til að verjast riðuveikinni.