131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[14:04]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er stórt mál og eðlilegt að það sé rætt á hv. Alþingi. Mér fannst ég vera nokkurn veginn sammála hv. frummælanda í mjög mörgum atriðum en ég tek eftir því að hann óttast þessa sameiningu fyrirtækjanna sem koma til með að verða 100% í eigu ríkisins og sennilega þá sem samkeppnisaðili eiganda Orkuveitu Reykjavíkur.

Ég vil halda því mjög til haga að raforkukerfið skiptist upp í tvenns konar rekstur, annars vegar samkeppnisrekstur á báðum endum í framleiðslu og sölu og síðan sérleyfisþætti, sem er flutningurinn og dreifingin, og þar er mjög mikið eftirlit. Orkustofnun hefur þetta eftirlit og þar að auki þarf að vera bókhaldslegur aðskilnaður á milli þessara rekstrarþátta (MÁ: Hvernig er með eiginfjárstöðuna?) þannig að ekki er hægt að tala um þetta með þeim hætti sem margir gerðu hér. Það er samt ekki hægt að útskýra þetta nákvæmlega.

Orkuveitan vildi ekki eiga í háspennulínum, hún vildi ekki eiga í Landsnetinu, þannig var það. Sérstök lög gilda um Landsnetið sem voru samþykkt hér á Alþingi þar sem segir að ef Landsnetið verður selt þarf hv. Alþingi að samþykkja það. Við erum ekkert að tala um það, menn eru komnir langt fram úr sér í þessari umræðu. (Gripið fram í.)

Hún var eins og við var að búast, gamla tuggan frá vinstri grænum. Þeir segja að verið sé að velta kostnaði stóriðjunnar yfir á almenning. Það er náttúrlega firra og einmitt núna er þetta aðgreint í rekstri fyrirtækjanna með sérstakri gjaldskrá.

Hvað varðar það að ég sé að svíkja Vestfirðinga er það alls ekki rétt. Ég er hér með samkomulagið sem gert var um árið og þar er bókstaflega reiknað með því að af sameiningu þessara fyrirtækja verði en hins vegar er tekið fram, sem ég tek alveg heils hugar undir, að þess þurfi að gæta að áfram verði störf á Vestfjörðum. (Gripið fram í: Tvö störf.)

Þeir tala náttúrlega um almannaþjónustu, almannaþjónustu, almannaþjónustu í raforkukerfinu. Við erum búin að markaðsvæða raforkukerfið með lögum frá Alþingi samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu þannig að þetta er bara gamla tuggan eins og er búin að vera hér í fleiri mánuði. (Gripið fram í.)

Svo veit ég að hv. þm. Jón Bjarnason mundi sakna mín á fyrsta degi ef ég færi utan. (Gripið fram í.)