131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

538. mál
[14:07]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég flyt frumvarp til laga um breyting á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000. Með setningu þeirra laga voru settar reglur um starfrækslu staðbundins hluta kerfisins hér á landi sem nauðsynlegar voru vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Eins og menn vita er það samstarf um landamæraeftirlit á vegum Evrópusambandsins með þátttöku okkar Íslendinga og Norðmanna og væntanlega Svisslendinga sem munu greiða um það þjóðaratkvæði á komandi sumri.

Af hálfu ráðherraráðs Evrópusambandsins var íslenskum stjórnvöldum tilkynnt, skv. 8. gr. 2 (a) samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, um samþykkt gerðar frá 29. apríl sl. um að taka þurfi upp ný atriði inn í Schengen-upplýsingakerfið til þess m.a. að efla baráttuna gegn hryðjuverkum. Um er að ræða minni háttar breytingar á ákvæðum Schengen-samningsins um upplýsingakerfið og þær eru lagðar til vegna þeirra samræmdu reglna sem gilda um þetta samstarf og eru nauðsynlegar til að þetta sameiginlega landamæraeftirlit sé virkt.

Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um þær upplýsingar um einstaklinga sem skrá má í Schengen-upplýsingakerfið. Þar er lagt til að felldur verði niður ákveðinn liður í 1. mgr. ákvæðisins sem kveður á um að skrá skuli fyrsta bókstaf annars eiginnafns. Þá verði heimilt að skrá upplýsingar um þá einstaklinga sem eru á flótta. Sem fyrr er sú upptalning sem þarna er getið tæmandi.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að við b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýir töluliðir sem kveða á um upplýsingar sem skrá má um einstaklinga þegar synja á útlendingi um komu til landsins vegna endurkomubanns, sem enn er í gildi á grundvelli brottvísunar, sbr. 96. gr. Schengen-samningsins. Skv. b-lið 1. mgr. 10. gr. laganna hefur Útlendingastofnun heimild til að bregðast við þeim upplýsingum sem skráðar eru á grundvelli framangreinds liðar í 6. gr. Um er að ræða upplýsingar um óútfyllt skilríki og útgefin persónuskilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið. Með persónuskilríkjum er átt við vegabréf, nafnskírteini og ökuskírteini.

Herra forseti. Ég legg til að eftir þessa umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.