131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

538. mál
[14:10]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hér hefur verið mælt fyrir lætur lítið yfir sér, virðist vera einföld lagfæring á lögum um Schengen-upplýsingakerfið.

Í frumvarpinu er breytingin útskýrð svona, með leyfi forseta:

„Af hálfu ráðherraráðs Evrópusambandsins var íslenskum stjórnvöldum tilkynnt, skv. 8. gr. 2 (a) samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna, um samþykkt gerðar frá 29. apríl sl., „Council Regulation concerning the introduction of some new functions for the Schengen Information System, including in the fight against terrorism“.“

Ég geri ekki ráð fyrir, virðulegi forseti, að lestur þessarar setningar hafi verið mjög til að skýra það sem hér er um rætt en eftir að hafa lesið hana yfir nokkrum sinnum áttaði ég mig á því að þarna er um að ræða gerð frá 29. apríl sl. sem samþykkt hefur verið af hálfu ráðherraráðs Evrópusambandsins og svo virðist sem okkur sé þá skylt að taka upp þessa breytingu á grundvelli þeirrar gerðar. Það hefði óneitanlega verið til skýringar ef þessi gerð hefði fylgt með í íslenskri þýðingu því að maður er í raun og veru engu nær um efni hennar eftir að hafa lesið frumvarpið sem slíkt. Breytingarnar snúast um það, eins og hæstv. dómsmálaráðherra tók fram áðan, að annars vegar er tekinn út c-liður 1. mgr. 5. gr. laganna um Schengen-upplýsingakerfið, sem fjallar um það að tilgreina megi fyrsta bókstaf annars eiginnafns, og hins vegar er bætt inn nýjum lið í þeim tilvikum sem skrá má upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið. Þessi nýi liður er h-liður og fjallar um það hvort viðkomandi er á flótta.

Nú geri ég ráð fyrir því að ráðherraráðið hafi kannað hvort umrædd breyting sé ekki í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Það er eitthvað sem ég mun líka vilja skoða í allsherjarnefnd en líklega hefur það verið gert þegar gerðin var búin til.

Síðan er seinni liðurinn, þ.e. 2. gr. frumvarpsins, þar sem verið er að bæta við b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna tveimur nýjum töluliðum. Þá erum við að tala um þau tilvik að heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið. B-liðurinn hljóðar þannig: „þegar synja á útlendingi um komu til landsins vegna endurkomubanns sem enn er í gildi á grundvelli brottvísunar“. Síðan eru tveir töluliðir þar undir og verið að bæta við tveimur hér. Þeir eru: „3. vegna óútfylltra skilríkja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið“ og „4. vegna útgefinna persónuskilríkja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið.“

Þá koma upp í hugann, sem ég geri ráð fyrir að við munum líka skoða í hv. allsherjarnefnd, fórnarlömb mansals sem oft eru með stolin eða fölsuð skilríki þegar þau eru flutt milli landa. Ef ég man rétt er það Palermo-samningurinn sem tekur á því. Þetta kom töluvert til umræðu þegar við ræddum útlendingalögin á sínum tíma og við hljótum að skoða þetta í hv. allsherjarnefnd líka.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, ætla ég ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið á þessu stigi. Við munum að sjálfsögðu skoða það vel í hv. allsherjarnefnd þegar þar að kemur.