131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

538. mál
[14:14]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og talsmaður Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd kom inn á er þetta ekki stórt frumvarp en það vöknuðu hjá mér spurningar þegar talsmaður okkar fjallaði um málið og ég ákvað því að koma upp og reifa þær. Hér segir að með lögunum sem sett voru árið 2000 um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi hafi verið settar reglur um starfrækslu staðbundins hluta kerfisins hér á landi, og síðan, eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir fór í gegnum, er getið um hvers eðlis þær breytingar eru sem gerðar eru tillögur um hér.

Það sem ég hef áhuga á að fá að heyra frá hæstv. dómsmálaráðherra er hvort upplýsingakerfin séu eins í öllum löndunum sem eru aðilar að Schengen-samningnum, hvort það sé alger skylda að hvert landi taki upp þær breytingar sem lagðar eru til og líka hvort það sé þannig að við getum skráð eitthvað í okkar staðbundna kerfi sem ekki er í öðrum löndum. Með öðrum orðum: Gætum við Íslendingar verið með eitthvað í okkar kerfi sem hin hafa ekki tekið upp eða er Schengen-kerfið þannig að það sé eins í öllum löndunum og algerlega skylt að það sé alltaf eins?

Þá vaknar önnur spurning og hún er eiginlega út af umræðu sem farið hefur fram hér á landi að undanförnu, og maður áttar sig ekki alveg á hvort á beinlínis við rök að styðjast, en það er um hvaða reglur hafi verið teknar upp í Bandaríkjunum um upplýsingakerfi þar. Mig langar að spyrja dómsmálaráðherra, og ég hef fullan skilning á því ef hann hefur ekki upplýsingar um það hér og nú en ef hann skyldi þekkja til þess: Að hvaða leyti er upplýsingakerfið sem tekið hefur verið í notkun í Bandaríkjunum öðruvísi en í Schengen og á Íslandi? Hvaða aðrar kröfur eru gerðar um persónuupplýsingar í Bandaríkjunum en á Schengen-svæðinu og Íslandi? Það sem ég er að kalla eftir er: Ef Íslendingar fara til Bandaríkjanna eru gerðar kröfur um aðrar upplýsingar um þá en við á Íslandi gerum um Bandaríkjamenn sem koma hingað? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við þingmenn vitum þetta út af staðhæfingum sem oft eru viðhafðar um þessi mál. Það væri mjög áhugavert að vita hvort hæstv. dómsmálaráðherra hefur svör við þessum spurningum mínum.