131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

538. mál
[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var að mínu mati afar dapurlegt hvernig Norðurlöndin voru teymd inn í Schengen-samstarfið á sínum tíma, sérstaklega vegna þess að það var ekki komið alveg heiðarlega fram í því máli. Það var ályktað um það á norrænum vettvangi og norrænir ráðherrar lýstu því yfir að það væri vilji til þess hjá Norðurlöndunum að leita sameiginlegra lausna þannig að Norðurlöndin gætu haldið hópinn og varðveitt, þrátt fyrir tilkomu Schengen-kerfisins, það fyrirkomulag sem löngu áður hafði verið upp tekið á Norðurlöndunum, að menn gætu ferðast þar milli landa ekki bara án vegabréfsáritana heldur líka án vegabréfa, að eingöngu gild persónuskilríki nægðu og það væri ekki landamæraeftirlit af því tagi sem krefst vegabréfaafhendingar.

Þessi samþykkt eða viljayfirlýsing var hins vegar túlkuð þannig eða meðhöndluð þannig að eina lausnin sem kæmi til greina væri aðild Norðurlandanna allra að Schengen-samkomulaginu og því kom upp sú undarlega staða að Ísland og Noregur sömdu sérstaklega um aðild sína að því Evrópusambandsfyrirkomulagi sem þarna er í grunninn á ferðinni. Ég er þeirrar skoðunar, og hún hefur ekki breyst, að það hefði verið mun heppilegri kostur fyrir Norðurlöndin að fara svipaða leið og Bretland og Írland, að semja um þátttöku í þeim hlutum þessa upplýsingasamstarfs sem menn töldu æskilegt að vera þátttakendur í en halda sjálfstæði sínu gagnvart öðrum þáttum og geta haft það fyrirkomulag á um hlutina sem mönnum hentaði við sínar aðstæður. Ég hef ekki orðið þess var að borgarar Bretlands líði sérstaklega fyrir það að Bretar völdu þessa leið og sjálfur hef ég ekki orðið var við að það hafi einfaldað málin sérstaklega hvað ferðalög snertir að Schengen-kerfið kom til sögunnar. Það má færa ýmis rök fyrir hinu gagnstæða. Á köflum hefur aldrei verið meiri þörf fyrir að hafa vegabréf upp á vasann en einmitt eftir að Schengen-kerfið gekk í gildi.

Varðandi það sem hér er á ferðinni í þessu frumvarpi virðist enn eiga að færa út landamærin hvað varðar þær upplýsingar sem heimilt sé að skrá inn í hinn miðlæga persónugagnagrunn sem þarna er á ferðinni og það hlýtur að vekja menn til umhugsunar um það hvert þetta stefni og hvernig menn ætli að stöðva sig af. Er þetta að sigla í sömu átt, allt undir þeim formerkjum að þetta sé liður í vörnum gegn hryðjuverkum sem málin hafa verið að þróast í Bandaríkjunum? Það er auðvitað óhuggulegt, það gífurlega lögregluríkisyfirbragð, ég vil kannski ekki segja persónunjósna en alla vega persónuupplýsingasöfnunarþjóðfélag sem þar er orðið á ferðinni, ef menn þurfa orðið að afhenda lífsýni eða ganga helst með þau upp á vasann til að komast á milli húsa. Það er auðvitað alveg rosalegt sem þarna er að gerast og þetta er, eins og ég segi, fóðrað með nauðsyn þess að það sé liður í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ég er ekki endilega viss um að það sé vænleg aðferð til þess né líklegt til að gera heiminn öruggari sem menn hafa aðallega viðhaft í þeim efnum og alveg einkum og sér í lagi frá því á mánuðunum eftir 11. september 2001.

Varðandi ýmsa hópa sem geta sérstaklega orðið fyrir barðinu á þessari breytingu þá er augljóst mál að flóttamenn og hælisleitendur og þeir sem hafa orðið fyrir því að glata persónuskilríkjum sínum eða af öryggisástæðum hafa orðið að granda persónuupplýsingum um sig til þess að halda lífi, en það er auðvitað veruleikinn að talsvert af þeim einstaklingum sem eru á flótta og eru síðan að biðja um pólitískt hæli hefur neyðst til þess af öryggisástæðum að eyða öllum upplýsingum um sig. Þá koma auðvitað upp flókin úrlausnarefni mannréttindalegs eðlis um hvernig á að taka á slíku og bregðast við því. Eru slíkir menn sekir eða saklausir þangað til hvað, þangað til eitthvað er um þá vitað og þangað til hægt er að sannreyna það hvort sagan er rétt sem fórnarlambið eða þolandinn, sem oftast er, reiðir fram að þessu sé svona háttað? Eða er á ferðinni einhver sem af ásetningi með eitthvað misjafnt í pokahorninu hefur valið þessa leið til að komast í skjól pólitísks hælis?

Þegar við ræðum upplýsingar um nýja hluti sem á að heimila að færa inn í þennan grunn skulum við rifja aðeins upp umræðuna sem fram fór á sínum tíma um af hversu fjölbreytilegum ástæðum menn geta lent inn í grunninn. Það er ekki sérstaklega þægilegt eða mikið tilhlökkunarefni fyrir einn eða neinn að lenda með upplýsingar inn í þennan grunn sem koma þar af leiðandi upp þegar persónuskilríki eru borin saman við upplýsingar í grunninum. Í fyrstunni skiptir ekki öllu máli af hvaða ástæðum einhver hefur lent þar inn, það er ekki fyrr en það er síðan skoðað. Þess vegna er það alltaf mikið umhugsunarefni hvers eðlis upplýsingarnar eiga að vera eða hversu ríkar ástæðurnar séu til þess að nöfn manna séu færð þarna sérstaklega inn þannig að viðvörunarbjöllurnar hringi eða ljósin blikki eða hvað það nú er þegar það kemur upp við skoðun að um þá eru upplýsingar í grunninum. Ég man þetta kannski ekki allt saman, herra forseti, til að fara með án þess að hafa tíma til að rifja það upp en ég man að menn ræddu þó um að þarna væri blandað saman býsna óskyldum hlutum og býsna misþungum hvað saknæmi snertir eða brot eða annað því um líkt þegar að þessu kæmi og það þarf að skoða þetta út frá því líka. Er hér á köflum hætta á því að færðar verði upplýsingar um einstaklinga inn í grunninn og tengdar við nafn þeirra sem síðan reynast svo í sjálfu sér kannski ekki á nokkurn hátt saknæmar, refsiverðar eða þannig að nein ástæða væri til? Síðan verði löng töf í kerfinu þangað til slíkum upplýsingum er kannski seint og um síðir eytt og nafn manna aftur hreinsað í grunninum.

Nú er rétt að menn hafi líka í huga að þessi tækni er öll að verða rafræn, vegabréf með stafrænum upplýsingum eru skönnuð inn og kannski verður framtíðin sú að menn hreinlega taki upp alveg rafræn vegabréf og rafrænar vegabréfsáritanir. Eitt landa a.m.k. í heiminum hefur þegar gert það, Ástralía. Þar er um algerlega rafrænar vegabréfsáritanir að ræða eða sá kostur er í boði og allar þessar upplýsingar komnar inn í tölvutæku formi. Þá er hægt að kalla þær fram á augnabliki í heilum heimshlutum.

Ég tel ástæðu til þess, herra forseti, að virðuleg þingnefnd, sem er allsherjarnefnd, væntanlega, fari yfir þessi mál. Þó að þetta mál láti lítið yfir sér hér held ég að það sé alveg tilefni til að rifja svolítið upp og fara yfir það hvernig þetta Schengen-kerfi allt saman er byggt upp í grunninn. Nauðsynlegt er að fá sérfræðing á sviði persónuverndar og persónuréttar til að fara yfir þetta og kalla Persónuvernd og aðra slíka aðila fyrir nefndina. Þetta gefur mönnum ágætistilefni til að rifja hlutina upp og fara yfir stöðuna, enda var málið afgreitt og gert að lögum á árinu 2000 og alveg tímabært að fara yfir það.