131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

538. mál
[14:34]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að koma upp í andsvar og þakka fyrir þau svör sem hæstv. dómsmálaráðherra veitti við spurningum mínum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að fulltrúar Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd munu fara mjög vel yfir málið og skoða aðra þætti sem áhugavert verður að fara yfir svo sem eins og gerðina sjálfa og annað sem allsherjarnefnd velur. Ég er líka mjög ánægð að heyra að ráðherra mun taka það upp á fundi í Brussel hvernig hægt verður að tryggja EES-borgurunum og Íslandi sömu tryggingar. Það skiptir okkur mjög miklu máli hvaða ákvarðanir Bandaríkjamenn taka um persónuupplýsingar og upplýsingakerfið hjá sér.

Satt best að segja ákvað Samfylkingin á sínum tíma að styðja aðild Íslands að Schengen og það var fyrst og fremst á grundvelli þess að við teljum mjög æskilegt að við séum saman í kerfi, að við séum bæði að gefa upplýsingar og fá upplýsingar eins og talið er að sé nauðsynlegt og séum með sömu tryggingar varðandi upplýsingaskyldu og upplýsingagjöf og önnur lönd. Ég vona að það hafi reynst rétt ákvörðun fyrir Ísland að gerast aðilar að þessu kerfi. Auðvitað horfir maður líka til þess að Bandaríkin gera e.t.v. allt aðrar og miklu meiri kröfur til þeirra sem þangað koma en gerðar eru til þeirra þegar þeir koma til Evrópu. Æskilegast væri að nokkurn veginn sömu kröfur og skyldur giltu í öllum löndum þannig að við virtum upplýsingaskyldu hvers annars en hún væri líka á grundvelli sömu reglna.