131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[14:36]

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá iðnaðarnefnd við 2. umr. um frumvarp til laga um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Orkuveitu Reykjavíkur, Húsavíkurbæ, Byggðastofnun, Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Bandalagi háskólamanna.

Með frumvarpinu er lagt til að Húsavíkurbæ verði veitt heimild til að stofna hlutafélag um rekstur Orkuveitu Húsavíkur og er frumvarpið flutt að beiðni Húsavíkurbæjar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, með leyfi forseta:

1. Við 7. gr. Í stað orðanna „desembermánuði 2004“ komi: marsmánuði 2005.

2. Við 8. gr. Í stað orðanna „1. janúar 2005“ komi: 1. apríl 2005.

3. Við ákvæði til bráðabirgða. Í stað orðanna „31. desember 2004“ komi: 1. apríl 2005.

4. Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:

Rekstrarlega séð skal yfirtaka Orkuveitu Húsavíkur ehf. á Orkuveitu Húsavíkur miðuð við 1. janúar 2005.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með ofangreindum breytingum sem gerð er tillaga um. Undir álitið rita Birkir J. Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Einar Már Sigurðarson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhann Ársælsson og Birgir Ármannsson.