131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[14:49]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála því frumvarpi sem hér liggur fyrir um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur. Það er athyglisvert að málið skuli rætt á sama fundi og yfirlýsing hæstv. iðnaðarráðherra um að ríkið kaupi hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun og líka í ljósi þess að þeir flokkar sem standa að þessu hvoru tveggja fyrir hönd sveitarfélaga sinna, Samfylkingin og Vinstri grænir, hafa hvað eftir annað og þrásinnis lýst yfir andstöðu sinni við að rekstrarformi fyrirtækja eins og Landssímanum á sínum tíma og annarra slíkra fyrirtækja yrði breytt í hlutafélagsform og haldið mjög þungar og harðar ræður um þau efni, að nú skuli báðir þeir flokkar standa að því að Reykjavíkurborg dragi sig út úr rekstri Landsvirkjunar og að Húsavík treysti sér ekki til annars en að leggja til að einkahlutafélag verði stofnað um Orkuveitu Húsavíkur, að sjálfsögðu vegna þess að það rekstrarform er hagkvæmara og gefur ótal möguleika.

Ég tók eftir því að hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, talaði um það áður að ekki væru uppi áform um að selja einkahlutafélagið Orkuveitu Húsavíkur. Ég hygg á hinn bóginn að í frumvarpinu sé ekkert sem mælir gegn því að einkahlutafélagið sameinist t.d. Norðurorku eða öðrum slíkum félögum og þá gerum við okkur grein fyrir í hvaða stöðu þau mál eru komin.

Jafnframt var athyglisvert í umræðunum í dag, sérstaklega hjá málshefjanda, hv. 9. þm. Reykv. n., Helga Hjörvar, þegar hann fór að tala um það í mörgum orðum að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki lengur hafa orkufyrirtæki í opinberri eigu, að Sjálfstæðisflokkurinn væri með þeim hætti að hækka raforkuverð í landinu, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi að Reykjavík seldi hlut sinn í Landsvirkjun og þar fram eftir götunum. Auðvitað geta vinstri flokkarnir ekki skotist undan þeirri ábyrgð að í þessum tilvikum báðum, bæði á Húsavík og eins í Reykjavík, ráða þeir stefnunni og stjórninni. Hv. þm. Helgi Hjörvar getur ekki veist að sjálfstæðismönnum fyrir ákvarðanir sem teknar eru af R-listanum í Reykjavík og ég skil vel áhyggjur hv. 5. þm. Norðaust., Steingríms J. Sigfússonar, yfir því að meiri hlutinn á Húsavík skuli vilji fara sömu leið og einkavæðingarflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa viljað fara með ýmis ríkisfyrirtæki. Það er ósköp skiljanlegt að hv. þingmaður hafi af þessu miklar áhyggjur.

Ég sá að hv. þm. Jóhann Ársælsson barði í borðið. Hann hefur líka haft ýmsar skoðanir uppi varðandi sölu á ríkisfyrirtækjum, enda er hann eins og þessir þrír menn allir kominn úr Alþýðubandalaginu. Að vísu var hv. þm. Ögmundur Jónasson ekki með formlegum hætti í Alþýðubandalaginu en bauð sig fram fyrir Alþýðubandalagið eins og Finnbogi Rútur Valdimarsson fyrir Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn, báðir talsmenn flokka sinna í utanríkismálum og ég hygg að þeir hafi báðir sympatíserað mjög sterkt, annar þeirra með Stalín en hinn með Breznev.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt að fá upp þá menn sem á undanförnum áratugum hafa talað harðast gegn slíkum fyrirtækjum eins og einkahlutafélagi sem sveitarfélög eða ríki eiga. En náttúrlega eru sveitarstjórnarmennirnir að beita sér fyrir breytingunum og leggja þær til af því að þeir eru að hugsa annars vegar um hag sveitarfélags síns og væntanlega líka vegna þess að þeir telja að með þeim hætti sé viðskiptavinum Orkuveitunnar betur borgið. Ég vil ekki trúa því að meiri hluti bæjarstjórnar Húsavíkur sé á þeirri skoðun að með stofnun einkahlutafélags um Orkuveituna sé meiri hluti bæjarstjórnar Húsavíkur samtímis að leggja á ráðin um að hækka orkuverð til Húsvíkinga, ég vil ekki trúa því. Ég vil heldur ekki trúa því að þegar R-listinn í Reykjavík leggur til að selja ríkinu hlut sinn í Landsvirkjun sé meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur, R-listinn, að leggja til eða gera ráðstafanir sem hann gerir sér grein fyrir að muni bitna á Reykvíkingum í hærra orkuverði. Getur verið að sú hugsun sé á bak við þetta allt saman?

Eða getur verið að hv. þingmenn í vinstri flokkunum báðum — báðum flokkunum er stjórnað af mönnum sem áttu sér sama hirði fyrir 13 árum — getur verið að það sé svo í báðum flokkunum að menn séu að tala þvert um hug sér? Þeir geri sér grein fyrir því að þetta sé besta leiðin til að tryggja lágt orkuverð í landinu, tryggja framþróun í þeim málum og tryggja frekari uppbyggingu á orkufrekum iðnaði en hafi á hinn bóginn ekki innri kraft og heiðarleika til að horfast í augu við staðreyndir málsins? Það er a.m.k. alveg ljóst að það fer að verða hjáróma rödd hins gamla leiðtoga Alþýðubandalagsins á Akranesi, Jóhanns Ársælssonar, ef hann ætlar að koma upp og halda áfram að ræða um að ekki megi einkavæða ríkisfyrirtæki eða fyrirtæki sveitarfélaga.