131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:00]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður hef ég ekki við höndina tiltekið eintak af BSRB-tíðindum þar sem höfð eru eftir þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Halldóri Blöndal, yfirlýsing sem ég man nú ekki betur en hafi verið þess efnis að hugur ráðherrans stæði ekki til að selja hlut ríkisins í Símanum. Látum það liggja á milli hluta að sinni.

Varðandi sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun hefur það komið fram rækilega í fjölmiðlum að á því hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð allan fyrirvara. Það sem breyst hefur í þeim efnum nú síðustu daga og reyndar vikur — hún er ekki alveg ný af nálinni yfirlýsing hæstv. iðnaðarráðherra þess efnis að til standi að einkavæða raforkukerfið í landinu. Það er rangt sem hv. þingmaður, hæstv. forseti þingsins, heldur fram að markaðsvæðing raforkukerfisins sé til hagsbóta fyrir notendur. Þvert á móti. Á Norðurlöndum hefur markaðsvæðing raforkukerfisins leitt til fákeppni, aðilum hefur fækkað sem eru á þeim markaði, eignarhaldið hefur færst úr landi, m.a. í Svíþjóð, og raforkuverð hefur hækkað.

Þá er einnig nýkomin út skýrsla frá Evrópusambandinu sem bendir til þess að markaðsvæðingin hafi í mörgum tilvikum misheppnast. Eitt af því sem bent er á í þeirri skýrslu er að fjárfestingar til uppbyggingar kerfisins séu orðnar mjög lágar, hættulega lágar, þannig að þetta er rangt sem sagt er að markaðsvæðingin, sem hv. þingmaður staðhæfir, hafi orðið til hagsbóta fyrir notendur, fyrir neytendur. Það er svoleiðis í kenningunni, en veruleikinn er bara allt annar.