131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:05]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég áður sagði. Það stendur að auðvitað ber Samfylkingin ábyrgð á því sem forustuflokkur í Reykjavík og forustuflokkur á Húsavík að þessi sveitarfélög vilja bæði selja orkufyrirtæki sín, hlut sinn í Landsvirkjun og hlut sinn í Orkuveitu Húsavíkur. Samfylkingin getur ekkert skotið sér undan þeirri ábyrgð. Það er auðvitað gott að sigla undir fölsku flaggi, en það er útilokað í þessu máli.

Ég bið svo afsökunar á því hafi ég munað það rangt að hv. þingmaður var andvígur því að selja Landssíma Íslands þegar ég hreyfði þeim hugmyndum hér, þá var ekki nema gott um það að segja. Þá hefur hv. þingmaður verið einn um það í sínum flokki að vilja selja Landssíma Íslands á þeim tíma sem ég var samgönguráðherra. Mér þykir nú vont að ég skyldi ekki muna það, en ekki rengi ég hv. þingmann. Ekki rengi ég heldur hv. þingmann um að hann hafi viljað selja Síldarverksmiðjur ríkisins svo dæmi séu tekin.

Aðalatriðið er ekki það. Aðalatriðið er að hér er verið að ganga skref, verið er að breyta á Húsavík bæjarfyrirtæki í einkahlutafélag og í Reykjavík vill Reykjavíkurborg selja sinn hluta í Landsvirkjun. Það er kjarni málsins.