131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:10]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að fara út um víðan völl í umræðum um þetta mál þó svo hv. þm. Halldór Blöndal hafi kosið að koma heldur snakillur í ræðustól og stökkva bæði fram og til baka í tíma og rúmi, mátti ekki á milli vera hvort hann var nær Húsavík, Reykjavík eða ríkisstjórninni í umræðum sínum og blandaði talsvert inn í þetta umræðum sem fóru hér fram fyrr á fundinum í dag utan dagskrár.

Það kann vel að vera að hv. þingmaður sé svona typpilsinna í hvert skipti sem málefni sem tengjast Húsavík ber á góma um þessar mundir af því flokkur hans fór hinar mestu hrakfarir þar í kosningum síðast og Framsóknarflokkurinn saman. Það var nefnilega stofnað blámórautt hræðslubandalag á Húsavík, blámórautt hræðslubandalag Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem fór heldur illa út úr kosningunum þar.

Hv. þingmaður gerði í máli sínu engan greinarmun á ákvörðun sem tengjast breytingum á rekstrarformi fyrirtækja annars vegar og því hvort starfsemi sé seld eða einkavædd hins vegar, virtist leggja þetta algerlega að jöfnu og þetta væri einn og sami hluturinn. Það kann vel að vera í hugarfylgsnum hv. þingmanns sé það alltaf svo, en auðvitað er það ekki veruleikinn og fjarri því að þannig sé það hjá ýmsum öðrum.

Vissulega væri hægt að fara yfir þetta Landssímamál og rifja það betur upp. Vel kann að vera að hv. þm. Halldór Blöndal hafi einhvern tímann lýst einhverjum sjónarmiðum persónulegum kannski um það, þess vegna á árinu 1991, að hann teldi að það ætti að einkavæða símann. En svo mikið er víst og það man ég vel að þegar hv. þingmaður, þáverandi hæstv. samgönguráðherra, var að reyna að berja þessi mál sín hér um að stofna hlutafélagið Póst og síma hf. þá reyndi hann að greiða götu þess í gegnum þingið með því að fullvissa menn um það og sverja og sárt við leggja að ekki kæmi til greina að einkavæða fyrirtækið. Það var ekkert vegna þess að hv. þingmaður, þáverandi hæstv. ráðherra, yrði bara að segja það af því hann hefði ekki stöðu til þess vegna annars í ríkisstjórn. Það var auðvitað bara af taktískum ástæðum sem verið var að reyna að telja fólki trú um þetta og róa menn niður sem þá þegar fóru auðvitað að gerast órólegir ýmsir vegna þess að þetta væri undanfari einkavæðingar. Frægast er einmitt þegar hæstv. þáverandi samgönguráðherra, hv. þm. Halldór Blöndal, færði það fram sem rök máli sínu til stuðnings að það ætti bara að gefa út eitt hlutabréf, bara eitt hlutabréf, þá hlytu allir menn að sjá að ekki væri hægt að skipta því upp, ekki selja hluta af einu hlutabréfi. Ég man að ég spurði þá hv. þingmann hvort þetta hlutabréf yrði úr stáli, svona til að undirstrika þetta. Það fór nú öðruvísi.

Eins og svo oft, oft áður í sögu þessara einkavæðingarleiðangurs ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og síðar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hefur aldrei verið neitt mark á yfirlýsingum um slíkt takandi. Aldrei. Það hefur einmitt varðað þennan feril hversu ófaglegur hann hefur allur verið, samanber hinar herfilegu upphafsaðgerðir og fyrstu skref eins og hér var minnt á svokallaða einkavæðingu Síldarverksmiðja ríkisins, sem út kom þykk skýrsla um frá Ríkisendurskoðun tveimur árum síðar, þar sem öll framkvæmdin fékk falleinkunn. Öll sömul í því máli.

Síðan hafa gerst í þessari sögu, sem örugglega á eftir að verða skrifuð einhvern tímann, hlutir af því tagi sem gerðust í tengslum við einkavæðingu Landssímans, að það reyndist ekkert mark á beinum yfirlýsingum ráðherra viðkomandi málaflokks takandi. Hv. þm. Halldór Blöndal er auðvitað með það á bakinu. Hann er ómerkingur orða sem hann lét falla á Alþingi í tengslum við hlutafélagavæðingu Pósts og síma.

Enn þá verri er þó arfleifð fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem má búa við að hafa lagt fram á þingi stjórnarfrumvörp með loforðum í greinargerðum, með svardögum í greinargerðum stjórnarfrumvarpa, um að ekki yrði hróflað við eignarhlut ríkisins í bönkunum fyrstu fjögur árin eftir að þeir yrðu gerðir að hlutafélögum. Að vísu var ekki meira lofað en því og menn fengu engar tryggingar til lengri framtíðar. Hins vegar er afar óvenjulegt — ég hygg að sagan geymi ekki mörg dæmi um slíkt í málaflokki af þessu tagi — að jafnskjalfestar brigður séu á orðum, yfirlýsingum, fyrirheitum og svardögum og einmitt í þessu einkavæðingarferli hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og síðan Framsóknarflokks.

Því miður kennir sagan mönnum að vera mjög tortryggnir þegar þjónustufyrirtækjum, almannaþjónustu eða opinberum rekstri, af hvaða tagi sem hann er, er breytt í hlutafélög. Út frá þessu skýrði ég afstöðu mína í ræðu minni og þarf ekki meira um það að segja í sjálfu sér. Ég læt ekki fipast í þeim málflutningi þótt hv. þm. Halldór Blöndal reyni að snúa eitthvað upp á það. Það er af þeim ástæðum sem ég er ekki stuðningsmaður þess þáttar frumvarpsins. Ég get ekki greitt því atkvæði sem snýr að því að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag, jafnvel þótt því fylgi fortakslaus samþykkt að heiman um að engin slík áform séu á döfinni, a.m.k. af hálfu núverandi meiri hluta í bæjarstjórn Húsavíkur. Ég get flett því upp þegar ég kemst í gögnin hjá iðnaðarnefnd hvort það var bæjarstjórn einróma eða bæjarráð. En svo mikið er víst að þar var talað í nafni bæjarfélagsins eins og völdum er háttað þar í dag að engin áform væru á döfinni um einkavæðingu starfseminnar og þá sérstaklega tekið fram að menn sjái hvorki fram á sölu né sameiningu við önnur fyrirtæki. Þetta er bréfað.

Þess vegna er það líka ómerkilegt af hv. þm. Halldóri Blöndal, þótt hann sé í skylmingum við hv. þm. Jóhann Ársælsson, að tala eins og fyrir liggi ákvörðun um að einkavæða starfsemina á Húsavík. Það sagði hv. þingmaður. Kannski hefur það verið mismæli. Hann talaði um tvískinnunginn í framgöngu Samfylkingarinnar, bæði í Reykjavík og á Húsavík þar sem nú stæði til að einkavæða hvort tveggja. Hann á þá væntanlega við að Reykjavíkurborg losi sig undan eignarhlut sínum í Landsvirkjun og formbreytingin verði á þessum rekstri á Húsavík. En það er ómerkilegur málflutningur þegar hið gagnstæða liggur fyrir, að gerð var sérstök bókun eða samþykkt um það í bæjarráði eða bæjarstjórn Húsavíkur að svo sé einmitt ekki. Skylt er að hafa það sem sannara reynist, a.m.k. það hér á Alþingi sem gengur inn í þingtíðindin. Þannig er eins gott að þetta liggi algjörlega ljóst fyrir.

Þrátt fyrir þá bókun mun ég þó ekki styðja upphafsgrein þessa frumvarps vegna þess að í henni er fólgin táknræn atkvæðagreiðsla um rekstrarformið sem slíkt. Ég er ekki stuðningsmaður þess að breyta starfsemi af þessu tagi í hlutafélagaform. Ég tel að það sé öruggara og betur um hana búið, annaðhvort í formi sameignarfyrirtækja eða þá sem hefðbundins opinbers félags á vegum ríkis eða sveitarfélaga. Ég vildi auðvitað gjarnan að til staðar væru fleiri kostir í þeim efnum eins og ég fór yfir áðan, að til sögunnar væri kominn sá möguleiki að hlutafélög í opinberri eigu störfuðu á grundvelli sérákvæða um að þau héldu einkennum sínum sem opinber félög hvað varðar rétt almennings til upplýsinga, aðhald íbúanna eða eigendanna sem á bak við standa en væru í rekstrarforminu nær fyrirtækjum á markaði.

En ef hv. þm. Halldór Blöndal vill halda áfram og færa umræðuna yfir í almennar umræður um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, um raforkumálin, um útspil iðnaðar- og fjármálaráðherra hvað varðar áhuga á sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkuveitu Reykjavíkur, þá er ég albúinn til slíkrar umræðu. Þetta er að vísu seinni ræða mín en við getum þá haldið umræðunni áfram á síðari stigum. Ég held að það verði ákaflega fróðlegt að heyra þingmenn stjórnarflokkanna, t.d. úr landsbyggðarkjördæmunum og reyndar úr hvaða kjördæmi sem er, fara um og reyna að sannfæra íbúa landsbyggðarinnar um ágæti þess fyrir hana að af þessum áformum verði, að Rafmagnsveitur ríkisins, Orkuveita Húsavíkur og Orkubú Vestfjarða verði sameinuð inn undir Landsvirkjun og síðan verði það allt saman einkavætt.

Hver er þá framtíðin sem blasir við mönnum á þessum svæðum? Jú, það er að kaupa orkuna í smásölu, eða í heildsölu ef um stærri aðila eða veitur er að ræða, af einkavæddum risa sem væri auðvitað í algerri einokunaraðstöðu í landinu. Menn væru algerlega áhrifalausir um þau mál að öllu leyti. Það yrðu mikil viðbrigði, sérstaklega fyrir Vestfirðinga, sem áttu því láni að fagna þangað til ríkisstjórnin eyðilagði það að eiga sjálfstætt, vel rekið og myndarlegt orkufyrirtæki, sem gerði hvað? Sem dreifði orku um svæðið og framleiddi um 40% af því sem til þurfti sjálft með ekki lakari árangri en svo að verðið var 10–15% hagstæðara en í fyrirtækjum sem ríkið rak. Í vaxandi styrk þess fyrirtækis hefðu þar fyrir utan getað verið fólgnir framtíðarmöguleikar Vestfirðinga til að nýta jafnvel afl sitt í aðra atvinnusköpun með svipuðu hætti og Suðurnesjamönnum hefur nýst Hitaveita Suðurnesja. Allir vita að Hitaveita Suðurnesja hefur sem blómlegt fyrirtæki með sterkan eiginfjárhag í vaxandi mæli orðið aflvél á bak við uppbyggingu á fleiri sviðum atvinnumála á Suðurnesjum. Nærtækasta dæmið er auðvitað Bláa lónið.

Öllum slíkum möguleikum verða menn sviptir og verða enn frekar ef hin hryllilegu framtíðaráform hæstv. iðnaðarráðherra og kannski ríkisstjórnarinnar allrar og hv. þm. Halldórs Blöndal ganga eftir. Þá eru endanlega úti draumar manna norðan heiða um að þeir geti öðlast eitthvert sjálfstæði í orkumálum, eignast t.d. landshlutaorkufyrirtæki sem sitji að hagfelldum virkjunarkostum á svæðinu, a.m.k. þeim smærri og meðalstóru. Menn gætu síðan í fyllingu tímans notið ávinningsins af lækkandi orkuverði og batnandi eiginfjárhag slíks fyrirtækis, sjálfum sér og íbúunum til hagsbóta.

Halda menn að þetta sé frýnileg framtíðarsýn, fyrir þá sem fyrir tveimur eða þremur árum héldu að höfuðstöðvar Rafmagnsveitna ríkisins væru á leið norður í land og þar væri handan við hornið að byggja upp öflugt orkufyrirtæki, sjálfstætt með höfuðstöðvar á svæðinu? Halda menn að það sé frýnileg framtíðarsýn að horfa til þess að innan sex eða átta ára, ef svo illa færi, sem betur fer eru litlar líkur á því, að þessi ólánsríkisstjórn héldi áfram völdum og kæmi því fram 2008, að einkavæða fyrirtækið til útlanda og menn sætu uppi sem áhrifalausir þolendur og ættu engan annan kost en að kaupa rafmagnið af einkavæddum risa, jafnvel í eigu útlendinga? Þangað væru ekki bara komin réttindin sem fylgja núverandi virkjunum. Við skulum átta okkur á því að það er margt sem hangir þar á spýtunni. Það er ekki bara reksturinn sem slíkur, í núinu, sem þetta snýst um og krónurnar í eigið fé, heldur líka réttindin sem þessi fyrirtæki hafa innbyggð. Það eru virkjanirnar sem starfræktar eru í dag og öll þau viðbótarréttindi sem fyrirtækin hafa náð að verða búin að helga sér með því að rannsaka virkjunarkosti og hafa til þess tilskilin leyfi. Þetta fer allt saman með, a.m.k. er ekki annað á mönnum að heyra.

Ég held að það eiga eftir að hrikta í í landinu ef ríkisstjórnin er virkilega búin að kokka þetta saman, eins og venjulega án þess að tala við nokkurn mann. Auðvitað koma þingmenn stjórnarliðsins af fjöllum, koma vælandi í fjölmiðla eins og venjulega, vælandi og grátandi og setja fyrirvara við málin í staðinn fyrir að gera uppreisn, berja í borðið og segja að ráðherrarnir séu umboðslausir. Nei, menn láta bjóða sér Íraksaðferðina eina ferðina enn. Eina ferðina enn. Svo koma þeir og tísta eitthvað í fjölmiðla, sjálfum sér og baklandinu til afbötunar, að það eigi nú eftir að ræða þetta meira o.s.frv.

Ríkisstjórnin virðist a.m.k. komin inn á þetta spor. Til marks um það er að iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra ber nokkurn veginn saman í yfirlýsingum sínum. Það bendir til þess að það sé ekki bara hæstv. iðnaðarráðherra, frú Valgerður Sverrisdóttir, sem eina ferðina enn hafi farið fram úr sjálfri sér heldur hafi þá a.m.k. hæstv. fjármálaráðherra gert það líka. Það væri dálítið sérstakt og mikil tilviljun ef gönuhlaupið hefði verið í nákvæmlega sömu átt hjá þeim báðum. Það er því ástæða til að ætla að ríkisstjórnin hafi rætt þetta beinlínis eða menn a.m.k. eitthvað milli stjórnarflokkanna og í þá átt sé þessu stefnt.

Ég spái því að ýmislegt eigi eftir að ganga á áður en þetta verður að veruleika, sem betur fer. Ég held að það megi kalla kost við lausmælgi hæstv. iðnaðarráðherra, að hún dregur upp fyrir mönnum það sem kann að vera í vændum. Menn hafa þó ráðrúm til að takast á við það og taka á móti því. Sem betur fer, þökk sé stjórnarskránni, herra forseti, verður þó búið að kjósa áður en þetta gengur eftir, a.m.k. miðað við þá tímasetningu sem hæstv. iðnaðar- og ráðherra hefur sett upp. Hún talaði um 2008 en auðvitað er engu að treysta í þeim efnum frekar en öðrum. Þannig að við glímum við það ef af því verður.

Okkar afstaða er sú að almannaþjónusta eins og mikilvæg veitustarfsemi sé best komin og í eigu, í höndum og á ábyrgð opinberra aðila. Þess vegna var fróðlegt að heyra hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í umræðu fyrr í dag mótmæla því að þetta væri almannaþjónusta. Á hvaða forsendum gerði hæstv. ráðherra það? Jú, vegna þess að það hafi verið ákveðið á Alþingi að markaðsvæða þessa starfsemi. Þar með kemur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra upp um þann hugsunarhátt að þar með sé ekki lengur um almannaþjónustu að ræða. Þetta er bisness. Þannig vill Framsóknarflokkurinn hafa þetta. Þetta á að vera bisness sem rekinn er í gróðaskyni, ekki lengur almannaþjónusta. Þá er svo sem rökrétt og eðlilegt að menn sjái þann kost vænstan í framhaldinu og reyni að koma fyrirtækinu í hendur á nógu miklum fjáraflamönnum og gróðamönnum sem muni sjá til að úr því verði mjólkaður allur sá arður sem mögulega er hægt. Það er nefnilega hægt að mjólka mjög mikinn arð, a.m.k. tímabundið, út úr rekstri af þessu tagi, sérstaklega af því að hann lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar. Það er bara ein pípa inn í húsið, einn þráður og auðvitað bara einn markaðsráðandi risi á sviðinu sem enginn annar getur keppt við að neinu marki ef svo heldur sem horfir, að þessi sameining gangi eftir. Þetta er allt saman ákaflega fróðlegt, herra forseti.

Þetta er andstætt sjónarmiðum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Einn af hornsteinum okkar stefnu hvað varðar velferðarsamfélag í landinu er að mikilvæg almannaþjónusta sé tryggð af hinu opinbera og þar sé félagslegur rekstur og félagsleg hugsun lögð til grundvallar þannig að menn standi jafnt að vígi gagnvart því í landinu og fullur jöfnuður og jafnrétti ríki að því leyti. Við erum andvíg því að einkavæða slíka starfsemi og þar er víglínan. Það gildir um félaga mína hvar sem er í landinu, enda er ekkert slíkt á ferðinni í þessu máli þótt þessi formbreyting sé ekki eins og ég hefði kosið eins og ég hef þegar rækilega gert grein fyrir.

Ég þarf ekki að hafa um þetta, herra forseti, fleiri orð.