131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:33]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er enn að reyna að tala undir rós með einhvers konar dylgjum. Þegar alþingismenn flytja hér frumvörp, hvort sem þeir eru ráðherrar eða ekki, stendur hugur þeirra venjulega til þess að gera það sem í frumvarpinu stendur. Er það ekki rétt, hv. þingmaður? Hins vegar hefur enginn maður skuldbundið sig til þess, hvorki hv. 5. þm. Norðaust. né ég, að breyta ekki um skoðun, taka ekki afstöðu með öðrum áherslum og þar fram eftir götunum eftir því sem tímarnir og áherslur breytast. Þetta veit hv. þingmaður.

Ég hygg að vænlegra sé fyrir hann að hætta þessum útúrdúrum og gangast hreinlega við því að lögin voru með þeim hætti að ekki var hægt að selja Landssímann nema með samþykki Alþingis. Enginn hv. þingmaður, hvorki hv. 5. þm. Norðaust. né ég, né nokkur annar sem hér á sæti, getur skuldbundið Alþingi fram í tímann. Nýir alþingismenn eru kjörnir, þeir taka sínar ákvarðanir og láta sig engu skipta það sem aðrir hafa sagt í umræðum, enda mega þeir ekki vera að því að kynna sér það og dytti það aldrei í hug. Eins er um einstaka aðra þingmenn.

Ég hygg t.d. að þegar ljósleiðarinn var lagður á sínum tíma til varnarliðsins, á meðan hv. 5. þm. Norðaust. var samgönguráðherra, hafi menn ekki spáð því beint fyrir fram. Ég man líka að hv. þingmaður kom ekki að því sem ráðherra á þeim tíma, heldur var það hæstv. forsætisráðherra sem á þeim tíma annaðist þann hluta ljósleiðaravæðingarinnar sem sneri að varnarliðinu.