131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:35]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi saga er í stuttri upprifjun þannig að þegar Pósti og síma, því ágæta opinbera fyrirtæki, var breytt í hlutafélag voru ýmsir menn að sjálfsögðu þegar tortryggnir og ályktuðu að þetta væri undanfari einkavæðingar fyrirtækisins. Þá fylgdu sérstakar yfirlýsingar af hálfu stjórnvalda um að ekkert slíkt væri á döfinni, þetta væri eingöngu formbreyting. Frumvarpið var vissulega þannig úr garði gert, samanber það sem hér var rifjað upp með 1. gr. Það leið samt ekki á löngu þangað til fyrstu skrefin voru tekin. Þau voru tekin með því að skipta fyrirtækinu upp, skipta því í Landssímann og Íslandspóst. Síðan leið tíminn og það var ekki þannig að Alþingi hefði ekki haft stöðu til að binda vald nýrra þingmanna og einhvers nýs meiri hluta því að sami meiri hlutinn hélt áfram. Þetta er nefnilega búið að vera í höndum sömu flokka og sömu manna meira og minna. Það er sami hæstv. ráðherrann, hv. þm. Halldór Blöndal, þáverandi hæstv. samgönguráðherra, sem fór að framkvæma eitthvað allt annað en hann hafði látið í veðri vaka að til stæði 1996. Þar af leiðandi þýðir ekkert að skjóta sér á bak við það að nýir menn komi og taki nýjar ákvarðanir. Það var sami gamli maðurinn sem gerði það. (Gripið fram í.)

Þess vegna var það líka að þegar kom að bönkunum voru menn mjög tortryggnir. Þótt það stæði í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu að ekki yrði hróflað við eignarhaldi hinna háeffuðu banka fyrstu fjögur árin var ekki einu sinni staðið við það. Það var ekki einu sinni staðið við skýr fyrirheit í greinargerð með stjórnarfrumvarpi. Þetta liggur fyrir. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Halldór Blöndal að æsa sig neitt út af því. Þetta eru bara sögulegar staðreyndir, herra forseti, sem er alveg sjálfsagt mál að rifja upp og veitir ekki af.