131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:37]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er búin að vera mjög fróðleg umræða um margt. Sérstaklega er athyglisvert að hlýða á útlistanir hv. þm. Halldórs Blöndals á stefnu ríkisstjórnarflokkanna, einkavæðingarflokkanna, eins og hann kallar Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

Ég held að það hafi verið vorið 2003, rétt fyrir kosningar, sem ný hafnalög voru samþykkt á Alþingi. Í þessum lögum var opnað fyrir heimild til að gera hafnir að hlutafélögum. Við vorum þá nokkur hér í þessum þingsal sem höfðum efasemdir um að þetta væri hyggileg breyting á lögunum. Við vorum öll í einum flokki, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ástæðan fyrir því að við töldum þetta óráðlegt var sú að við töldum að með þessu móti yrði þrengt að lýðræðislega kjörnum fulltrúum til að sinna félagslegum verkum, taka ákvarðanir á grundvelli félagslegra sjónarmiða og byggðasjónarmiða. Þetta gæti t.d. þegar fram liðu stundir komið illa niður á smáum höfnum. Hafið engar áhyggjur af þessu, vorum við fullvissuð um, m.a. af ráðherrum. Við erum staðráðin í því, ríkisstjórnin er staðráðin í því að standa vörð um hagsmuni smárra hafna, hafna á landsbyggðinni. Vandinn er bara sá að ríkisstjórnin hefur ekki lengur vald til að taka ákvarðanir eins og hún hafði fyrir þessa lagabreytingu.

Það sem gerðist var að hafnirnar voru færðar undan Siglingastofnun sem ein hafði haft yfirsjón með þeim fyrir hönd ríkisvaldsins og færðar undir aðra sem heitir Samkeppnisstofnun. Nú erum við komin inn í það umhverfi með hafnirnar að ef ein þeirra telur sér mismunað af hálfu ríkisvaldsins varðandi fjárveitingar eða stuðning getur hún kært þá ráðstöfun til Samkeppnisstofnunar sem brot á samkeppnislögum. Þetta gerist þegar við förum með almannaþjónustu, samfélagsþjónustuna, inn á markaðstorgið. Þetta er ein afleiðing þessa. Við þurfum að hugsa öll þessi mál til mjög langs tíma. Við þurfum að hugsa til langs tíma þær breytingar sem við erum að ráðast í. Síðar í dag verður til umfjöllunar svokallaður GATS-samningur sem einmitt snertir þessi mál öll saman og er smám saman að skuldbinda okkur að ýmsu leyti á þann hátt sem ég er að lýsa hér.

Þó að það sé ásetningur núverandi sveitarstjórnar á Húsavík, í þessu tilviki, að selja ekki hlut í því fyrirtæki sem hér er verið að stofna eða formbreyta kemur dagur eftir þennan. Sú er ástæðan fyrir því að í Hollandi var það bundið í stjórnarskrá landsins að ekki megi einkavæða vatnið, drykkjarvatnið. Hvers vegna? Vegna þess að slíkt væri svo afdrifarík ákvörðun að jafnvel þótt meiri hluti í sveitarfélögum eða í landstjórninni væri fyrir því einhvern tímann að einkavæða drykkjarvatnið væri um að ræða slík grundvallarréttindi, þ.e. eignarhald á drykkjarvatni, að ekki mætti láta slík pólitísk sjónarmið ráða, pólitísk sjónarmið sem væru ofan á í skamman tíma í einhverri sveitarstjórn eða í landstjórninni.

Síðan vorum við minnt á það fyrir fáeinum dögum af hæstv. iðnaðarráðherra að ef við förum út á markaðstorgið með almannaþjónustuna ráðum við engu um það hvar eignarhaldið endar, hvar það lendir. Við þurfum að auglýsa hluti til sölu á öllu hinu Evrópska efnahagssvæði.

Þá má spyrja: Skiptir það einhverju máli? Skiptir einhverju máli hver eigandinn er og hvar hann er? Já, það skiptir nefnilega grundvallarmáli. Eignarform á fyrirtækjum og starfsemi skiptir miklu máli. Ég er sannfærður um það og við erum sannfærð um það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að hlutafélagaform er mjög óheppilegt þegar grunnþjónustan er annars vegar. Ástæðan er sú að eigandinn, hlutabréfshafinn, eigandi hlutabréfs, er óáreiðanlegur eigandi þegar hann er kominn fjarri starfseminni sjálfur, þegar það er ekki lengur sveitarfélagið eða ríkið sem á hlutinn. Hluthafi fjárfestir í fyrirtæki til þess að hafa af því arð. Ef á móti blæs eða ef meiri arð er að hafa í annarri starfsemi fer hann þangað. Þetta hefur sýnt sig. Þess vegna er hlutafélagaformið í almannaþjónustu, það hefur sýnt sig í símafyrirtækjum og raforkufyrirtækjum, mjög óheppilegt. Hluthafar sem eru að fjárfesta til að taka arð út úr fyrirtækjum eru ekki áreiðanlegir eigendur.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað um lífeyrissjóðina í þessu sambandi. Lífeyrissjóðirnir eru ekki áreiðanlegir eigendur fremur en aðrir vegna þess að þeim er lögum samkvæmt gert að fara þangað með fjármuni sína sem ávöxtun eða arðsemi er mest hverju sinni. Þetta eru bara staðreyndir. Þess vegna er hin gamla klisja um að í hlutafélagavæðingu felist einhver mikil og björt framtíð, það sé nútímavæðing eins og stundum er sagt, alröng. Þetta er bara klisja og stenst ekki skoðun.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á þingmál sem liggur fyrir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, um að athugun verði gerð á því lögleiða nýtt fyrirkomulag, hlutafélög í ríkiseign. Þetta er nokkuð sem þekkist á Norðurlöndunum, t.d. í Svíþjóð þar sem er löng hefð fyrir slíku. Þetta er mjög brýnt að skoða. Reyndar þarf að skoða líka önnur möguleg form. Ég tel að finna þurfi millistig á milli ríkishlutafélags af þessu tagi og byggðasamlags. Byggðasamlag er ágætis eignar- og rekstrarform, nema það hefur ákveðna annmarka varðandi aðkomu eigenda að slíku fyrirtæki. Við þekkjum það hér á höfuðborgarsvæðinu, t.d. slökkviliðin á höfuðborgarsvæðinu sem hafa sameinast í byggðasamlagi og það á við einnig um önnur fyrirtæki. Ég tel að finna þurfi þarna enn eitt fyrirkomulag sem svarar kröfum um sveigjanleika í eignarhaldi, þannig að sveitarfélög og ríki eftir atvikum geti tekið höndum saman eða geti sameinast um fyrirtæki eða stofnun en haldi ekki með þau út á markaðstorgið, sem því miður gerist jafnan þegar fyrirtækjum er breytt í hlutafélög. Það er a.m.k. mikil hætta á því að svo gerist. Það þyrfti ekki annað en fá meiri hluta samstiga hæstv. iðnaðarráðherra í sveitarstjórn á Húsavík til að það sjónarmið yrði ofan á. Þetta eru bara staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.

Ég tel því óráðlegt að ráðast í þessar breytingar þó að ég efist ekkert um góðan vilja þeirra manna sem stýra för á Húsavík. Það kemur því máli ekkert við. Við þurfum að hugsa þessi mál öll til langs tíma og jafnan með það í huga að dagur kemur eftir þennan dag.