131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:05]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég í orðahnippingum við hv. þm. Halldór Blöndal tala um blámórautt hræðslubandalag Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Húsavík er auðvitað ekki nokkur einasta ástæða til að persónugera það og yfirfæra á það ágæta fólk sem situr í bæjarstjórn á Húsavík. Það er bara ekki þannig sem við gerum þetta í pólitíkinni þegar við ræðum hlutina. Við getum deilt hart á stefnu og ákvarðanir flokkanna sem fyrirbæra en við persónugerum þá ekki og það er ekki til hnjóðs sagt um einhverja einstaklinga sem að baki þeim standa eða störf þeirra. Ég bara frábið mér slíkar ávirðingar. Ég held að ég þekki allt þetta fólk ágætlega, a.m.k. flestallt, og ég veit að það vinnur störf sín þarna af samviskusemi og dugnaði. Það er enginn ofhaldinn af því að vera í sveitarstjórn í meðalstóru þéttbýlissveitarfélagi á landsbyggðinni við þau skilyrði sem mönnum eru þar skömmtuð til að rækja störf sín og reka sveitarfélög. Almennt eigum við ekki að venja okkur á það að reyna að persónugera það þegar við tökumst á um pólitíkina, um stefnur og störf.

Hið sama gildir um hv. þingmann þegar hann er allt í einu orðinn svona viðkvæmur að hann lítur svo til að verið sé að tala niður til sín þegar pínulítið er verið að skjóta á hann pólitískt í salnum. Þá er nú orðið vandlifað hér í heimi ef við megum ekki aðeins takast á um hlutina án þess að í því sé fólgin einhver tilraun til að tala viðkomandi einstaklinga niður.

Merkasta yfirlýsingin sem kom auðvitað fram hér í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar var að iðnaðarráðherra væri eiginlega umboðslaus í tali sínu um að selja Landsvirkjun, það væri ekki stefna Framsóknarflokksins og það ætti eftir að ræða málið í þingflokknum. Það væru þá aldeilis tíðindin ef það stæði til að þingflokkur Framsóknarflokksins setti hnefann einhvern tímann í borðið og setti ráðherra sína „på plads“ eins og menn mundu segja á dönsku. Ja, guð láti gott á vita, að það eigi eftir að gerast en ég hef lítið séð af því hingað til, hvort heldur Írak á í hlut eða eitthvað annað.