131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Þá, herra forseti, verð ég bara að halda því fram að í þessum málflutningi séu fólgnar ákveðnar mótsetningar, að segja annars vegar að iðnaðarráðherra sé ekki umboðslaus þegar hún talar með þessum hætti og að hún hafi fullt traust flokks síns en svo kemur hins vegar að þetta sé eiginlega alveg órætt mál og að þetta sé ekki stefna Framsóknarflokksins. Hæstv. iðnaðarráðherra var beinlínis að lýsa þeirri framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar að breyta Landsvirkjun, þ.e. hinum stóra sameinaða orkurisa, í hlutafélag og undirbúa að selja eignarhlut ríkisins, a.m.k. eitthvað af honum. Hún nefndi tímatalið 2008 sem ákveðinn upphafspunkt í þeim efnum.

Þetta fer í raun og veru ekki nógu vel saman, held ég, ef betur er að gáð. Hæstv. iðnaðarráðherra hlýtur annaðhvort að tala í nafni ríkisstjórnarinnar og þeirra þingflokka sem á bak við standa eða þá eitthvað annað og mjög undarlegt er á ferðinni. Reyndar var hæstv. fjármálaráðherra á sömu nótum. Við eigum þá eftir að sjá það að þingflokkar stjórnarflokkanna taki af ráðherrunum völdin, eins og áður sagði. Það yrðu mikil tíðindi og hefur lítið borið á því hingað til að menn myndu eftir þingræðinu þegar til kastanna kemur.