131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:15]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Hér var kallað fram í: Þar sem tveir framsóknarmenn koma saman, þar er ófriður. Ég veit ekki hvort hægt er að ganga svo langt að fullyrða það. Ég vil til að forðast allan misskilning byrja á að taka það fram að ég ber djúpa virðingu fyrir einlægum efasemdum hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um einkavæðingu „Landsvirkjunarorkubúsrafmagnsveitunnar“ sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ætla að búa til, stærsta ríkisfyrirtæki Íslandssögunnar. Það er hins vegar alrangt þegar nefndur þingmaður segir að sú stefna hafi ekki verið mótuð og mikil umræða eigi eftir að fara fram. Það hefur þá alveg farið fram hjá hv. þingmanni að ríkisstjórn Íslands hefur lýst því yfir að mörkuð hafi verið stefna um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag og fá einkaaðila til fjárfestingar og það sé fyrsta skrefið í einkavæðingu Landsvirkjunarorkubúsrafmagnsveitunnar. Slík stefnuyfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar er algerlega afdráttarlaus. Þingmaðurinn getur ekki vefengt hana eins og hann hefur gert í umræðunni. Ég vek athygli á því að sú yfirlýsing hefur þegar haft áhrif á starfsemi Landsvirkjunar.

Þegar ríkisstjórn markar stefnu, hv. þingmaður, þá hefur það áhrif. Þannig hefur fyrirtækið m.a. þurft að gera grein fyrir þeim nýju stefnuyfirlýsingum gagnvart lánshæfismatsfyrirtækjum erlendis. Lánardrottnar þess spyrja auðvitað, þegar fregnir berast af því að til standi að einkavæða fyrirtækið, hvað sé á ferðinni. Ég á ekki von á að það hafi nein áhrif á stöðu fyrirtækisins. Það er enn þá ríkisfyrirtæki og nýtur ábyrgða og hefur fyrsta flokks lánshæfiseinkunn. En það liggur fyrir og hefur verið lýst yfir að fyrirtækið verði hlutafélagavætt og einkaaðilar fengnir að því og það sé fyrsta skrefið í einkavæðingunni. Ég held að ég muni það örugglega rétt, en tek þó fram að ég rifja upp viðtal við hæstv. iðnaðarráðherra eftir minni, að hún hafi sagt, aðspurð um efnið: Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að ríkisrekstur sé ekki heppilegt form eða fyrirkomulag. Hvernig það hljóðaði orðrétt skal ég ekki um segja en það varð ekki skilið sem annað en yfirlýsing ráðherrans um að tími ríkisrekstrar í þessari atvinnugrein væri að líða undir lok.

Ræður hæstv. iðnaðarráðherra í utandagskrárumræðum við mig fyrr í dag var heldur ekki hægt að skilja á annan hátt. Fullyrðingum mínum um að þetta Landsvirkjunarorkubúsrafmagnsveitufyrirtæki yrði selt einum einkaaðila með grunnnetinu og öllu saman var ekki mótmælt af hæstv. ráðherra né neinum af fulltrúum stjórnarflokkanna í umræðunni.

Ég tek hins vegar eftir því að hv. þm. Halldór Blöndal hefur greinilega talið sig eiga erindi í þá umræðu þótt hann hafi ekki verið fulltrúi flokks síns við hana. Það kom mér sannarlega nokkuð á óvart að heyra utandagskrárumræðuna að sínu leyti endurtekna undir þessum dagskrárlið þar sem ég sat á skrifstofu minni. Ég var út af fyrir sig alinn upp við það að Þingeyingar væru menn stórhuga og ekki þjakaðir af minnimáttarkennd en það var ofar hugmyndaflugi mínu að þingmenn þeirra gerðu þetta risavaxnasta fyrirtæki Íslandssögunnar að umfjöllunarefni undir liðnum Orkuveita Húsavíkur. Sannarlega er þar nokkuð ólíku saman að jafna þó að mjór sé mikils vísir.

Við vonum að orkuiðnaður í Þingeyjarsýslum muni eflast, dafna og styrkjast mjög á næstu árum en ég gat ekki gert ráð fyrir því að þessi utandagskrárumræða yrði endurtekin undir þessum lið. Ég verð þó að hafa þann fyrirvara að ég heyrði aðeins hluta umræðunnar af hálfu hv. þm. Halldórs Blöndals. Mér þótti hún sannarlega nokkuð einkennileg og raunar athyglisvert í umræðunni allri að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem þátt hafa í henni tekið hafa ekki fjallað um efni málsins eða fyrirætlanir ríkisstjórnar heldur hafa þeir reynt að beina ljósinu og spjótum sínum að Reykjavíkurlistanum og samstarfinu í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég gæti sett fram kenningar um hvers vegna hv. þm. Halldór Blöndal telur það réttast og ég skal svo sem fara í það á eftir en þingmaðurinn sagði eitthvað á þá leið að nú væri útilokað fyrir Reykjavíkurlistann og Reykjavíkurborg að selja eignarhlut sinn í Landsvirkjun ef við teldum að það mundi leiða til hækkunar á raforkuverði hjá almenningi. Því er til að svara, hv. þingmaður, að þegar Reykjavíkurborg selur eignarhlut sinn í Landsvirkjun, vonandi nú á haustdögum, geta borgaryfirvöld ekki gert ráð fyrir að einhverjir vitleysingar fari með landstjórnina. Þeir hljóta að gera ráð fyrir því að þar með sé eignarhluturinn í Landsvirkjun í góðum höndum, að vel verði með hann farið og stjórnvöldin standi ekki þannig að málum að það leiði til ófarsældar í raforkuiðnaðinum. Við skulum líka muna það, hv. þingmaður, að árið 2007 verður kosið til Alþingis og algerlega óvíst um hvaða meiri hluti muni sitja árið 2008, þegar boðað hefur verið að fyrirtækið verði hlutafélagavætt og einkavætt. Enn höfum við sem betur fer, almenningur í landinu, öll tök á að hafa áhrif á úrslit þeirra mála.

(Forseti (JBjart): Forseti vill áminna hv. þingmann um að ávarpa hæstv. forseta en ekki einstaka þingmenn.)

Sjálfsagt er að taka tillit til þess, virðulegur forseti, en það verður að hafa í huga þingmanninum til afsökunar að hv. þingmaður er einatt á forsetastóli og þingmaðurinn því vanur að ávarpa hann beint. Allt um það.

Það er ekkert einkennilegt að þingmenn stjórnarliðsins af landsbyggðinni skuli reyna að beina ljósunum annað eða draga í efa þá stefnumörkun sem kynnt hefur verið um sameiningu þessara þriggja fyrirtækja. Auðvitað liggur málið þannig, a.m.k. séð frá sjónarhóli mínum héðan í Reykjavík, að sameining þessara þriggja fyrirtækja, Rafmagnsveitnanna, Orkubúsins og Landsvirkjunar hlýtur að vera fólki á landsbyggðinni talsvert áhyggjuefni, m.a. í heimahéraði hv. þingmanns sem ákvað að gera landsmálin að umfjöllunarefni undir liðnum Orkuveita Húsavíkur hf.

Vissulega er verið að taka pólitíska ákvörðun um að flytja þungamiðjuna í þessum tveimur fyrirtækjum, Rarik og Orkubúi Vestfjarða, sem fyrst og fremst hafa þjónað landsbyggðinni, hingað til Reykjavíkur. Það hefur síðan verið boðað að við þá sameiningu við Landsvirkjun verði farið í hagræðingaraðgerðir í þessum rekstri til að ná niður kostnaði. Menn þurfa ekki lengi að hafa fylgst með þjóðmálum, þróun atvinnumála eða fyrirtækja, til að átta sig á því hvaða afleiðingar það getur haft fyrir utan Reykjavík. Auðvitað er það þannig að starfsstöðvar þessara fyrirtækja eru útstöðvar fyrirtækis sem hefði höfuðstöðvar í Reykjavík, Landsvirkjunarorkubúsrafmagnsveitunnar eða hvað menn ætla að kalla þennan þríhöfða þurs. Það hlýtur að vekja spurningar á landsbyggðinni um hvernig hv. stjórnarþingmenn landsbyggðarinnar halda á hagsmunum hennar. Það er eðlilegt að hv. þm. Halldór Blöndal reyni að gera tortryggilegan málflutning hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem benti réttilega á að verkefnið væri miklu frekar að reyna að styrkja þau orkufyrirtæki sem starfa úti um landið til að auka fjölbreytni og samkeppni á þeim markaði.

Þegar hv. þingmaður Halldór Blöndal sagði að vissulega hefði þurft að skjóta styrkari stoðum undir Rafmagnsveitur ríkisins þá hafði hv. þingmaður lög að mæla. En að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins felst ekki í því að gera fyrirtækið að deild í Landsvirkjun. Að skjóta styrkari stoðum undir Rafmagnsveitur ríkisins getur ekki falist í því að leggja það niður og gera það að deild í Landsvirkjun. Nei, að skjóta styrkari stoðum undir raforkufyrirtæki á landsbyggðinni hlyti að felast í því að horfa til að sameina fyrirtækin á landsbyggðinni, til að mynda þau sem starfa fyrir Norðurland, og flytja höfuðstöðvar þeirra þangað. Menn gætu jafnvel séð fyrir sér að í framtíðinni gætu einstök orkuver, til að mynda í eigu Landsvirkjunar á Norðurlandi, runnið til slíks fyrirtækis. Þannig mundu öflug atvinnufyrirtæki út um landið í þessum mikilvæga iðnaði eflast í stað þess að vera útibú frá fyrirtæki með þungamiðju allrar sinnar starfsemi í höfuðborginni.

Vitanlega er það frá þessum atvinnupólitíska veruleika sem hv. þm. Halldór Blöndal reynir að beina ljósinu vegna þess að auðvitað ættu stjórnarþingmenn landsbyggðarinnar að vinna að því að efla Norðurorku, Rarik og Orkubú Vestfjarða sem eitthvert mótvægi á orkumarkaðnum en ekki leggja þær eignir sem neytendur á landsbyggðinni hafa byggt upp með greiðslu rafmagnsreikninga í áratugi inn sem einhverjar deildir í Landsvirkjun í Reykjavík og afhenda það svo einkaaðilum.

Ég sakna þess að hv. þm. Halldór Blöndal skuli ekki í þessu sambandi að hafa fjallað um auðlindagjöld. Okkur hlýtur líka að leika forvitni á að vita hver afstaða þessa forustumanns Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er til þess efnis. Við þekkjum að hann studdi það þegar fiskimiðin, fiskurinn í sjónum, hin sameiginlega auðlind okkar landsmanna var gefinn einkaaðilum. Þar var þó lagaáskilnaður um að Íslendingar yrðu að eiga meiri hluta í þeim sjávarútvegsfyrirtækjum. Eigi að hefja einkavæðingarleiðangur á auðlindum landsins er engum slíkum girðingum til að dreifa. Iðnaðarráðherra hefur vísað til þess að menn á Evrópska efnahagssvæðinu þyrftu að sitja við sama borð. Það þýðir á mæltu máli að orkulindir á Norðurlandi gætu sem hægast komist í hendur útlendingum. Ef ekki er skipulag um auðlindir eða auðlindagjöld þá yrði fólk í þessum landshlutum jafnvel að horfa upp á að þar rynnu árnar, þar féllu vatnsföllin og þar gysi upp jarðhitinn og gerði ekki annað en mylja gróða í vasa ítölsku rafveitnanna og kannski einhverra stóriðjufyrirtækja vegna þess að hér hefðu menn ekki verið nægilega forsjálir til að tryggja að við Íslendingar ættum sjálfir og saman auðlindir landsins og tækjum afgjald af þeim.

Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal, hv. þm. Birkir Jónsson og aðrir hv. þingmenn stjórnarliðsins af landsbyggðinni ættu að setja hælana í og reyna að snúa við þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað. Ég fæ ekki betur séð, og er þó ekki þingmaður landsbyggðarkjördæmanna og ekki kjörinn til að gæta hagsmuna þeirra sérstaklega, en þetta ógni atvinnupólitískum hagsmunum landsbyggðarinnar og að vinda verði bráðan bug að því að snúa við stefnu ríkisstjórnarinnar. En stefnan er ekkert á reiki. Hún liggur fyrir, hún er yfirlýst og er kunn, ekki bara á Íslandi heldur líka erlendis. Hún er m.a. kunn þeim fyrirtækjum sem lána fé í raforkugeirann á Íslandi vegna þess að þeir þurfa að fylgjast með því hvaða stefna er uppi. En þegar einkavæðing heyrist eru bjöllur auðvitað fljótar að hringja. Sú stefna liggur fyrir. Þeirri stefnu verða hv. þingmenn að snúa við ef þeir meina eitthvað með því sem þeir hafa sagt í dag en ekki bara lýsa efasemdum.