131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:50]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Annars vegar vil ég taka það fram um yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra varðandi Rarik og Landsvirkjun að ég hef ekki séð útfærslu á þeim hugmyndum sem hæstv. ráðherra er með og kýs að fá að sjá þær frekar og hvernig að þeim verður staðið áður en ég get talað um þær í einstökum atriðum.

Varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir held ég að það liggi alveg ljóst fyrir að meiri hluti bæjarstjórnar Húsavíkur leggur til að stofna einkahlutafélag um Orkuveitu Húsavíkur þar sem meiri hlutinn gerir sér grein fyrir því að orkuverð á Húsavík er mjög hátt um þessar mundir, óeðlilega hátt, og ég hygg að Orkuveita Húsavíkur eigi erfitt með að standast samkeppni í raforkuverði. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt fyrir Húsvíkinga að leita leiða til þess að lækka orkuverðið. Stofnun þessa hlutafélags er að sjálfsögðu liður eða þáttur í því. Ég tel að það sé mjög óskynsamlegt í slíkum hugleiðingum að útiloka það fyrir fram að til sameiningar gæti komið milli Orkuveitu Húsavíkur og Norðurorku t.d. Ég bendi á að ýmsar hitaveitur úti á landi hafa verið keyptar upp af Orkuveitu Reykjavíkur til þess að reyna að lækka verðið. Það er af þeim sökum sem flokksbræður hv. þingmanns á Húsavík leggja það nú til að stíga fyrsta skrefið til þess að unnt sé að einkavæða Orkuveitu Húsavíkur með sama hætti og R-listinn í Reykjavík, ef marka má ummæli og skoðanir hv. þm. Helga Hjörvars, er að stíga fyrsta skrefið til þess að einkavæða Landsvirkjun.