131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[17:21]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sá ástæðu til að vekja athygli á þessu með hliðsjón af því sem hv. þingmaður sagði áður um Orkubú Vestfjarða þó að hann hafi ekki getið hinnar miklu þekkingar sem Landsvirkjun ræður yfir.

Í ljósi þessara ummæla hv. þingmanns er þá ljóst að það er mikils virði fyrir Húsvíkinga að það frumvarp sem hér liggur fyrir nái fram að ganga um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur til þess að þeir hafi frjálsar hendur um það hvernig þeir geti haldið á málefnum sinnar orkuveitu þannig að það geti orðið til þess að lækka verð á heitu vatni og rafmagni. Við megum ekki binda okkur fyrir fram í eitthvert eitt eignarform þegar við reynum að gera okkur grein fyrir því hvernig rétt sé að byggja upp sterka, ódýra og örugga þjónustu úti á landi.