131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[17:22]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að í máli mínu hefði komið greinilega fram að ég hef ekki bundið mig við neitt eitt eignarform og að ég hefði sagt það m.a. að ég teldi varðandi Orkuveitu Húsavíkur að menn yrðu að fá að velja þann farveg sem þeir teldu bestan fyrir íbúana og menn yrðu auðvitað að treysta þá sveitarfélögunum á hverjum tíma til þess að horfa til þeirra hagsmuna.

Ég lagðist því í sjálfu sér ekki gegn því að Orkuveita Húsavíkur yrði gerð að einkahlutafélagi. Ég vakti hins vegar bara athygli á því að það er ákaflega mikils virði fyrir byggðir í þessu landi að sveitarstjórnarmenn eða sveitarfélög sem hafa eignarhald á orkuveitum kunni fótum sínum forráð í þessu málum. Ég tel, hæstv. forseti, að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi ekki kunnað fótum sínum forráð við söluna á orkubúinu.