131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[17:58]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið fróðleg og upplýsandi umræða og ljóst að hv. iðnaðarnefnd komst ekki að einróma niðurstöðu hvað varðar lagafrumvarpið. Ég vil þó segja að ræða hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur olli mér þó nokkrum vonbrigðum þegar hún brigslar mér um eða gefur í skyn að einhverjir aðilar úti í bæ hafi haft samband við mig eða einhverja flokksmenn og að verið sé að gera einhverju fyrirtæki úti í bæ sérstakan greiða og hygla því. (ÁRJ: Hvers vegna þá?) Ég ber þær sakir af mér og hefði átt að koma undir liðnum: Ber af sér sakir, því hér er um alvarlegar ásakanir að ræða. Ég held að þetta lýsi (Gripið fram í.) fyrst og fremst hugarfari hv. þingmanns frekar en þeim vinnubrögðum sem við höfum viðhaft í hv. iðnaðarnefnd. Ég hef ekki rætt við nokkurn einasta aðila utan nefndafunda hjá iðnaðarnefnd um málið.

Ég held að við höfum unnið málið að mörgu leyti ágætlega. Við kölluðum til okkar alla þá gesti sem nefndarmenn óskuðu eftir, fulltrúa frá 11 aðilum og sendum málið til umsagnar víða.

Hv. þingmenn hafa spurt um fjárhagslega hagsmuni, hvaða fjárhagslegu hagsmunir liggi hér að baki og hverjir græði. Það var alveg sama hvaða hagsmunaaðila við spurðum, hverjir væru að græða og hverjir að tapa, við fengum engin svör við því, því það kemur fram í nefndarálitinu að það eru engir beinir fjárhagslegir hagsmunir vegna þessarar lagasetningar. Þetta kom mjög skýrt fram hjá þeim gestum sem heimsóttu nefndina. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir nefndi líka áðan að þetta væri gert í andstöðu við heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið sem er beinlínis rangt. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið óskaði að sjálfsögðu ekki sérstaklega eftir því að málið færi í gegn en það kom skýrt fram á fundi nefndarinnar með fulltrúa frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu að þeir settu sig ekki gegn því að lögin öðluðust þegar gildi. Það var því á hreinu.

Það kom líka fram á fundi með hagsmunaaðilunum að nokkur Evrópulönd hafa innleitt í einkaleyfislöggjöf sína ákvæðið sem við erum að lögleiða hér og snertir umhverfi samheitalyfjaframleiðenda. Íslenskir samheitalyfjaframleiðendur eru í samkeppni í samfélagi þjóðanna og það er búið að innleiða þetta ákvæði í nokkrum öðrum Evrópuríkjum. Trúlega mun þetta styrkja rannsóknir þeirra og minnka áhættuna á því að þeir fái á sig lögsóknir hvað það varðar. Þetta styrkir lagarammann utan um þá starfsemi sem er mjög mikilvæg hér á landi.

Enn og aftur. Það kom mjög skýrt fram að engir beinir fjárhagslegir hagsmunir fylgdu þessu lagafrumvarpi, sem vonandi verður að lögum frá hinu háa Alþingi, og ég hafna því alfarið að hér sé um eitthvert leynimakk að ræða og einhver leynisamtöl úti í bæ og hér sé verið að gera einhverjum ákveðnum ótilgreindum aðila greiða. Ég hafna því algjörlega og vísa því til föðurhúsanna.