131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[18:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði aldrei um fjárhagslega hagsmuni, ég talaði um hagsmuni. Hvers vegna erum við farin í þann leiðangur að lögfesta þetta svona snemma ef ekki eru einhvers staðar einhverjir hagsmunir að baki? Ef það eru engir hagsmunir bíðum við bara eins og aðrar þjóðir og lögfestum þetta samhliða breytingunum á lyfjalögunum þegar aðrar þjóðir Evrópusambandsins lögfesta þetta, og samþykkjum breytingartillögu okkar. (Gripið fram í.) Við samþykkjum gildistöku eins og við leggjum til hér í breytingartillögu og þá er þetta allt í lagi. Hvað liggur svona á? Hvers vegna liggur svona á, hv. þingmaður? Komdu með svarið við því í ræðustól Alþingis. Hvers vegna kemur ekki svar við því? Það kom ekki fram í nefndinni. Það komu engin rök fyrir því fram í nefndinni hvers vegna þyrfti að hraða þessu svona og koma á því ójafnvægi sem þetta hefur í för með sér milli samheitalyfjaframleiðenda og frumlyfjaframleiðenda, sem bent er ítrekað á í umsögnum.

Hvað er hér á ferðinni, hv. þm. Birkir Jón Jónsson? Ég kalla eftir svari við því. Ef hv. þingmaður veit það ekki, hvet ég hann til að samþykkja breytingartillögu okkar um að gildistakan verði í október eins og við leggjum til.

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir þingmenn um að beina máli sínu til forseta en ekki einstakra hv. þingmanna.)