131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[18:03]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta andsvar olli mér miklum vonbrigðum vegna þess að ég hélt að hv. þingmaður hefði hlustað á seinni ræðu mína sem ég flutti rétt áðan.

Það er rangt hjá hv. þingmanni þegar hún fullyrðir að aðrar þjóðir í Evrópu hafi ekki innleitt lögin hvað varðar einkaréttinn sem snertir samheitalyfjaframleiðendur. Það er beinlínis rangt. Það eru nokkrar þjóðir búnar að stíga þetta skref vegna þess að þar eru öflug samheitalyfjafyrirtæki með framleiðslu sína. Þetta er alþjóðleg samkeppni og snertir samkeppnisstöðu Íslands. Það kom mjög skýrt fram hjá öllum nefndarmönnum að hér eru engir beinir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og það kom fram hjá gestum nefndarinnar að þetta mundi styrkja samkeppnisstöðu landsins á þessum markaði og mögulega koma í veg fyrir hugsanlegar lögsóknir á hendur þessum fyrirtækjum.

Ég held að ég hafi svarað öllu því sem hv. þingmaður beindi til mín. Hvernig í ósköpunum getur hv. þingmaður ætlast til þess að ég sem þingmaður á Alþingi, og sit í iðnaðarnefnd rétt eins og hv. þingmaður, geti sagt nákvæmlega hvaða áhrif þetta hafi á einstök fyrirtæki, þegar þeir ágætu aðilar sem komu fyrir nefndina gátu ekki einu sinni svarað því sjálfir? Ég á mjög erfitt með að skilja þennan málflutning og þær aðdróttanir sem í honum liggja.