131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[18:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja við svona málflutningi. Lagt hefur verið til að breytingarnar í þessari tilskipun fari samhliða inn í lyfjalög og einkaleyfalög. Við erum búin að lesa hér upp úr umsögnum þar sem menn leggja það til og telja að með því að gera þetta eins og frumvarpið kveður á um, sé verið að raska því samkomulagi sem búið var að koma á milli þessara framleiðenda.

Það hefur ekki komið fram hjá hv. þingmanni eða í nefndinni, virðulegi forseti, hvers vegna við erum að flýta þessu svona. (BJJ: Það kom svar.) Það var ekkert svar, virðulegi forseti, hjá hv. þingmanni, ekki nokkurt svar. Hann getur þá komið upp og skýrt það betur í seinna andsvari sínu ef hann vill.

Við höfum ekkert á móti því að lögfesta þessa tilskipun en við viljum að það sé gert um leið og aðrar þjóðir og samhliða í lyfjalögum og einkaleyfalögum, þannig að við röskum ekki því jafnvægi sem komið var á með samkomulaginu.