131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[18:11]

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram hjá ýmsum, a.m.k. einhverjum, sem voru á fundum nefndarinnar að þetta gæti einmitt kallað fram lagaþrætur, þ.e. ef við látum þennan hluta málsins ganga á undan. Það gæti kostað málssóknir á grundvelli þess að hér hefði ekki verið staðið rétt að málum.

Mér finnst þau rök sem hér hafa verið færð fram ekki nógu sterk. Ég fékk á tilfinninguna, án þess að mér væri nokkurn tímann sagt hvað væri um að vera, að þarna myndaðist tími sem hægt væri að hafa einhverja óljósa hulu yfir, þ.e. að menn gætu haldið því fram að rannsóknir sem farið hefðu fram á þessum tíma hefðu orðið til þess að lyfjaframleiðendur, samheitalyfjaframleiðendur gætu sett á markaðinn lyf sem hefðu orðið til vegna þeirra rannsókna sem farið hefðu fram á þeim fáeinu mánuðum sem þarna er verið að skjóta inn í. Þetta vildi enginn kannast við.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér nægir ekki sem þingmanni á hv. Alþingi að ráða í það sem menn segja, að lesa milli línanna það sem menn eru í raun og veru að segja. Ég hef ekki hugmynd um hvort eitthvað er til í þessu. Og ég er ekki viss um að ég verði frekar tilbúinn til að standa að því að flýta þessari löggjöf þó að þetta væri rétt, einfaldlega vegna þess að þá er verið að segja okkur að ástæðan fyrir því að menn séu að flýta þessu sé sú að það eigi að vera á gráu svæðunum í samskiptunum.