131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr vegsliti.

65. mál
[18:30]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr vegsliti af völdum bifreiða. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björgvin G. Sigurðsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi tillögur sem miði að því að draga úr vegsliti af völdum bifreiða. Hugað verði meðal annars að breytingum á álögum hins opinbera á innflutning fjórhjóladrifsbifreiða og sérstökum aðgerðum til að draga úr notkun nagladekkja.“

Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 127. og 128. löggjafarþingi en varð ekki útrædd og er nú lögð fram allnokkuð breytt.

Rykmengun sem stafar af vegsliti er mikil hér á landi og einnig kostnaður vegna árekstra af völdum illa búinna bifreiða. Fram til þessa hafa stjórnvöld þó ekki beitt hagrænum aðgerðum sem augljóslega gætu dregið úr vandanum.

Vegslit vegna notkunar nagladekkja er afar mikið og það veldur ryk- og tjörumengun. Það er því mikið í húfi ef mögulegt er að draga úr notkun nagladekkja án þess að slysahætta aukist og draga þannig úr rykmengun og spara stórfé í viðhaldi gatna. Veðurfar er hér afar breytilegt milli vetra og segja má að suma vetur hafi bifreiðar verið á negldum dekkjum allan veturinn þótt þörfin fyrir þau hafi ekki verið fyrir hendi nema í tvær til þrjár vikur. Kanna þyrfti hvort dekkjaþjónustur gætu farið að bjóða upp á tæknivædda geymslu dekkja á felgum og hröð og ódýr skipti sem gætu þá farið fram oftar en ella. Þetta gæti haft mikinn sparnað í för með sér fyrir bifreiðaeigendur vegna minni kostnaðar við nagladekkin en ekki síður fyrir opinbera aðila í viðhaldi gatna.

Margir furða sig á að stjórnvöld hafi ekki ýtt undir notkun fjórhjóladrifsbifreiða en vitað er að slíkar bifreiðar eru mun öruggari í hálku og við erfiðar akstursaðstæður en eindrifsbifreiðar. Þetta hefur margra ára reynsla Íslendinga af notkun slíkra bifreiða sannað. Bifreið á góðum vetrardekkjum, þótt ónegld séu, með drif á öllum hjólum er miklu öruggari til notkunar í misjafnri vetrarfærð í þéttbýli en eindrifsbifreið á negldum dekkjum. Því er ástæða til að hvetja til notkunar fjórhjóladrifsbifreiða. Slíkt mætti m.a. gera með sérstökum afslætti innflutningsgjalda. Bifreiðar með fjórhjóladrifi eru nokkuð dýrari en bifreiðar með hefðbundnum drifbúnaði. Þess vegna verða innflutningsgjöld og tollar hins opinbera á þær nokkru hærri. Flutningsmenn telja að það ætti að vera þveröfugt vegna jákvæðra áhrifa eiginleika slíkra bifreiða í umferðinni. Einnig þarf að leita leiða til að hvetja eigendur fjórhjóladrifsbifreiða til að nota frekar góð ónegld vetrardekk en nagladekk.

Þá leggja flutningsmenn til að skoðað verði hvort taka beri upp staðbundið gjald á notkun nagladekkja í þéttbýli en slíkt fyrirkomulag hefur verið í gildi í Ósló síðustu ár með svo góðum árangri að stjórnvöld hyggjast koma því á í fleiri bæjum í Noregi. Slíkt fyrirkomulag mundi gilda um allar bifreiðar sem ekið er um viðkomandi svæði en í tengslum við slíka breytingu yrði að tryggja mjög góða hreinsun gatna. Hugsanlegt er að það gæti hentað á höfuðborgarsvæðinu og þarf að skoða þá hugmynd gaumgæfilega.

Fjölgun dísilknúinna fólksbifreiða gæti skipt verulegu máli í náinni framtíð til að draga úr mengun. Dísilvélar draga fyrst og fremst úr mengun vegna þess að orkueyðslan er miklu minni. Vísindamenn greinir reyndar á um hvort mengun af völdum dísilbifreiða geti að hluta til reynst hættulegri en önnur mengun. En mengunin er engu að síður minni þar sem orkunotkunin er 40% minni í dísilbifreiðum en bensínbifreiðum.

Með aðgerðum sem hér er lýst mætti draga verulega úr mengun og kostnaði við umferð í þéttbýli. Sterk rök eru m.a. fyrir því að vel búin fjórhjóladrifsbifreið sé fullkomlega hæf til vetraraksturs þótt hún sé á ónegldum dekkjum. Það er skoðun flutningsmanna að fjölgun fjórhjóladrifsbifreiða auki öryggi í umferðinni og að vel sé framkvæmanlegt að draga verulega úr vegsliti og þar með rykmengun og kostnaði með þeim ráðstöfunum sem hér eru lagðar til. Tillagan boðar ekki neina byltingu en mun sýna, ef samþykkt verður, jákvæða viðleitni stjórnvalda til að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar á umhverfið. Með framkvæmd hennar yrði beitt hagrænum leiðum til að draga úr vegsliti, mengun og slysahættu.