131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stimpilgjald.

66. mál
[18:36]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi að ræða rétt undir lok dagsins mál sem snertir í raun hvern einasta Íslending með einum eða öðrum hætti, eins og ágætur maður orðaði það einhvern tímann, mál sem ríkisstjórnin hét fyrir tveim til þremur árum að taka fyrir, þ.e. niðurfellingu á stimpilgjöldum.

Ég hef óskað eftir því að fjalla um þessi mál saman. Annars vegar er um að ræða frumvarp á þskj. 66, sem er um heildarniðurfellingu á stimpilgjaldinu. Þar er bandormur þar sem tekið er á öllum lagagreinum þar sem stimpilgjöldin eru nefnd, hvort sem um er að ræða lög um ákveðna sjóði eða undanþáguákvæði, sem eru svo gjarnan í þeim lögum. Í frumvarpinu eru 40 greinar, nokkuð viðamikið frumvarp og mikið mál að rekja þar hverja grein.

Við flutningsmenn þessara frumvarpa, sem eru auk mín hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, höfum áður lagt fram mál sama efnis á 130. löggjafarþingi. Það varð ekki útrætt. Þessi mál voru bæði lögð fram á upphafsdögum þingsins í þeirri von að möguleiki væri á að þau næðu fram að ganga og fullrædd á þinginu og innan nefndar. Engu að síður fagna ég því að þau eru komin á dagskrá og mun nefndin a.m.k. geta sent þau út til umsagnar og vonandi afgreitt bæði málin fyrir vorið.

Í gildandi lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, er gert ráð fyrir að greitt sé stimpilgjald af íslenskum viðskiptaskjölum. Gjaldið er mishátt eftir skjölum.

Skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD-ríkjum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur neikvæð áhrif, t.d. mismunar hún aðilum innan lands og veikir samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Jafnframt má halda því fram að með tilkomu rafrænnar eignarskráningar verðbréfa sé hlutverki stimpilskyldu í raun lokið. Ekki er hægt að stimpla rafræn verðbréf, auk þess sem ekki er um skjöl í eiginlegri merkingu þess orðs að ræða. Þá er einnig á það að líta að stimpilgjöld geta lagst mjög þungt á þá sem kaupa sér húsnæði, sérstaklega þá sem eru að festa sér húsnæði í fyrsta sinn og þurfa að teygja sig svo langt sem þeir geta, t.d. ungt barnafólk. Þá benda flutningsmenn jafnframt á að óeðlilegt sé að við skuldbreytingar á lánum sem fjölskyldur hafa tekið sé stimpilgjald innheimt hvað eftir annað. Þarna er á ferðinni gjaldtaka sem er langt umfram það sem þjónustan kostar í raun.

Tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi á árinu 2003 voru 3.300 millj. kr. og samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2004 eru þær áætlaðar á greiðslugrunni 3.545 millj. kr. Þær urðu hins vegar vel yfir 6 milljarða kr.

Undanþágur frá greiðslu stimpilgjalda er víða að finna í lögum og hefur það gert innheimtu þeirra flókna. Þá getur aukning rafrænna viðskipta einnig gert innheimtu gjaldanna vandasama og í sumum tilfellum nokkuð hjákátlega þar sem engin eiginleg stimplun fer fram í slíkum viðskiptum.

Við niðurfellingu laga um stimpilgjald er nauðsynlegt að breyta með bandormi ákvæðum fjölmargra annarra laga sem kveða á um greiðslu stimpilgjalds. Í flestum þeirra lagaákvæða sem bandormurinn snertir er veitt undanþága frá greiðslu stimpilgjalda. Í nokkrum þeirra er þó kveðið á um að krafa um stimpilgjald skuli miðast við annað hlutfall en ákveðið er í lögum um stimpilgjald og er þá oftast um að ræða ívilnanir til handa erlendum aðilum vegna beinna fjárfestinga hér á landi. Þessir aðilar munu því njóta verulegrar ívilnunar líkt og aðrir verði frumvarp þetta að lögum og því geta stjórnvöld í einstaka tilfellum þurft að taka samninga við slíka aðila til endurskoðunar.

Virðulegi forseti. Þar sem um viðamikinn bálk er að ræða og bandorm þá gerum við flutningsmenn frumvarpsins okkur fulla grein fyrir því að það getur orðið þrautin þyngri að fá það samþykkt á Alþingi. Um er að ræða skattstofn sem felur í sér, samkvæmt 3. gr. laga um stimpilgjald, stimpilskyld skjöl. Í fyrsta lagi eru það skuldabréf. Þar er 1,5% stimpilgjald sem leggst á öll skuldabréf, hvort sem þau eru tryggð með veði eða ábyrgð. Í öðru lagi eru það afsöl. Afsöl fyrir fasteignum hér á landi og skipum sem hér eru skrásett. Skatthlutfallið er 0,4% og leggst á fasteignamat eða kaupverð í tilviki skipa. Í þriðja lagi eru víxlar. Á víxla er lagt 0,25% stimpilgjald. Þá eru það hlutabréf þar sem stimpilgjald er 0,5% á frumútgáfu hlutabréfa í félögum með takmarkaða ábyrgð, en framsal hlutabréfa og jöfnunarhlutabréfa er skattfrjálst. Vátryggingarskjöl bera stimpilgjöld ef þau snerta fasteignir eða verðmæti hér á landi, sjóvártryggingar á varningi, tryggingar á varningi fluttum með flugvélum eða landfarartækjum og farangurstryggingar bera 0,024% stimpilgjald vátryggingarfjárhæðar.

Fyrir nokkrum árum þegar ríkisstjórnin hét því að fella niður stimpilgjaldið, mig minnir að í frumvarpi til fjárlaga það árið hafi verið áætlaðar um 900 milljónir til fyrsta áfanga þess að fella niður stimpilgjaldið, voru tekjur af stimpilgjaldinu mun lægri heldur en þær eru í dag. Í fjárlögum fyrir 2004 var eins og ég sagði áðan áætlað að tekjurnar yrðu tæpur 3,5 milljarðar kr. en þær urðu 6,4 milljarðar kr. Aukningin er fyrst og fremst vegna fasteignaviðskipta.

Í svari sem hæstv. fjármálaráðherra gaf mér við fyrirspurn um hverjar væru heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum árið 2003 og samkvæmt áætlun 2004, þar sem ég óskaði eftir því að því yrði skipt niður eftir skattstofnum, kemur fram að heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum fyrir árið 2003 námu 3,7 milljörðum kr. og eins og áður sagði þá voru þær áætlaðar svipaðar á árinu 2004, en urðu hins vegar 6,4 milljarðar kr.

Í svarinu segir, með leyfi forseta:

„Fyrirkomulag og innheimta stimpilgjalda veldur því að erfitt er að gera sér fyllilega grein fyrir skiptingu gjaldsins. Í upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins kemur fram að stimpilgjöld af fasteignaviðskiptum á fyrri hluta ársins 2004 eru um 65–70% af heildarstimpilgjöldum. Hér er bæði um að ræða stimpilgjöld af skuldabréfum og kaupsamningum. Það má því gera ráð fyrir að stimpilgjöld vegna fasteignakaupa á árinu 2003 hafi verið um 2,4 milljarðar kr. Vegna breyttra aðstæðna á lánamarkaði vegna fasteignakaupa á seinni hluta ársins 2004 er erfiðara að áætla hve mikill hluti stimpilgjaldsins sé vegna fasteignakaupa. Gróf nálgun gæti numið tæpum 4 milljörðum kr.“

Það segir sem sagt, virðulegi forseti, að langstærsti hluti þessara stimpilgjalda er greiddur af einstaklingum, af fjölskyldum þessa lands sem fjárfesta í húsnæði.

Síðan spurði ég, með leyfi forseta:

„2. Hve stór hluti heildartekna ríkissjóðs af stimpilgjaldi vegna fasteignaviðskipta einstaklinga verður til við endurfjármögnun lána?“

Það er eðlilegt að svo sé spurt vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á húsnæðislánamarkaðnum að undanförnu. Í svari ráðherra kemur fram að ekki liggi fyrir upplýsingar um tekjur af stimpilgjöldum vegna endurfjármögnunar lána vegna fasteignaviðskipta.

Í þriðja lagi spurði ég, með leyfi forseta:

„3. Hve stór hluti heildartekna ríkissjóðs af stimpilgjaldi vegna fasteignaviðskipta einstaklinga er endurgreiddur í formi vaxtabóta?“

Þá kom jafnframt fram að ekki liggja fyrir upplýsingar um það hve stór hluti heildartekna ríkissjóðs af stimpilgjaldi vegna fasteignaviðskipta einstaklinga er endurgreiddur í formi vaxtabóta.

Upplýsingarnar um þennan óréttláta skatt sem ætti að vera fyrir löngu búið af afnema eru því mjög takmarkaðar. Við leggjum til, eins og hér hefur komið fram, að þessi skattur verði í heild sinni lagður af. Þar sem við gerum okkur grein fyrir að það kostar mikla vinnu nefndarinnar og gerum okkur satt að segja, virðulegi forseti, ekki vonir um að slíkt frumvarp verði afgreitt á þeim tíma sem eftir er af yfirstandandi þingi þá lögðum við fram annað frumvarp til laga um breytingu á lögum um stimpilgjaldið, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru hinir sömu. Ásamt mér eru það hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Það frumvarp hefur að hluta til verið flutt áður. Við segjum í greinargerð, með leyfi forseta:

„Það er stefna Samfylkingarinnar að afnema beri stimpilgjöld og hefur á fyrri þingum verið flutt um það þingmál. Það frumvarp sem hér er flutt felur í sér rýmkun á undanþágum frá gjaldheimtunni sem að mati flutningsmanna er brýnt að lögfesta sem fyrst, en gera má ráð fyrir að nokkurn tíma taki að afgreiða og ná samstöðu um að fella að fullu niður öll stimpilgjöld. Þessi rýmkun snýst í fyrsta lagi um að leiguíbúðir verði undanþegnar stimpilgjaldi og í öðru lagi um að stimpilgjöld verði ekki innheimt þegar um er að ræða endurfjármögnun lána sem áður hefur verið greitt af stimpilgjald.“

Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að það ákvæði er tilkomið fyrst og fremst vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á húsnæðismarkaði þar sem mjög stór hluti þeirra sem áður voru með lán hjá Íbúðalánasjóði hafa fært sig yfir í bankakerfið vegna þess að þar bjóðast hagstæðari kjör. En þessir einstaklingar hafa orðið að greiða stimpilgjöld af endurfjármögnun sinna lána.

Á 130. löggjafarþingi lögðu flutningsmenn þessa frumvarps fram frumvarp um stimpilgjald (543. mál, þskj. 818). Það mál var ekki afgreitt úr nefnd en umsagnir sem bárust um málið voru nær allar jákvæðar. Flutningsmenn flytja nú málið aftur að viðbættri nýrri grein sem felur í sér útvíkkun á 26. gr. laganna þannig að bréf til endurnýjunar eða endurfjármögnunar eldri skulda, sem þegar hefur verið greitt stimpilgjald af, verði stimpilfrjáls.

Samkvæmt núgildandi ákvæði 26. gr. laganna er innheimt hálft stimpilgjald ef skuld samkvæmt skuldabréfi eða tryggingarbréfi er endurnýjuð með nýju bréfi og um sama skuldarsamband er að ræða. Skuldaraskipti eru stimpilfrjáls. Flutningsmenn leggja til að ákvæðinu verði breytt þannig að ný bréf, skuldabréf eða tryggingarbréf, sem nýtt eru til endurnýjunar eða uppgreiðslu eldri bréfa verði undanþegin stimpilskyldu. Þannig verði það ekki skilyrði að skuldarsamband haldist óbreytt heldur geti nýr kröfuhafi verið að yngra bréfi. Sömuleiðis felst í tillögu flutningsmanna að ekki þarf nýtt bréf á móti hverju eldra bréfi heldur verði hægt að endurnýja eða leysa af hólmi fleiri en eitt eldra bréf með einu yngra og krefjast stimpilfrelsis af því yngra að því marki að það samsvari eldri bréfum sem þegar hafa verið greidd stimpilgjöld af. Ef yngri skuld er hærri en sú eða þær sem leystar eru af hólmi yrði áfram að greiða stimpilgjald af þeirri fjárhæð sem eftir stendur eða þar til stimpilgjaldið hefði að fullu verið afnumið. Flutningsmenn telja að með þessu verði einstaklingum og fyrirtækjum gert léttara að endurfjármagna eldri og óhagstæðari skuldir eftir því sem hagstæðari kjör bjóðast á lánamarkaði. Núverandi skattheimta, sem felst í stimpilgjaldi, getur vegið þungt þegar metinn er möguleikinn á endurfjármögnun lána og hindrað fólk í að leita sér hagstæðari lánakjara. Í tillögu flutningsmanna felst í raun að heimilum og fyrirtækjum verði auðveldað að hagræða hjá sér með því að felld verði niður stimpilgjöld af því sem í daglegu tali er fellt undir endurfjármögnun lána.

Þá er með þessu frumvarpi lagt til að heimildarbréf, þ.e. kaupsamningar og afsöl, vegna íbúða sem sveitarfélög, félög og félagasamtök kaupa í þeim tilgangi að leigja þær út, sbr. VIII. kafla laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, verði stimpilfrjáls. Fyrir árið 1999 — áður en þau lög gengu í gildi — voru heimildarbréf vegna félagslegra leiguíbúða undanþegin stimpilskyldu. Þá var farið að krefjast stimpilgjalda af heimildarbréfum slíkra íbúða. Við athugun á þessum lögum sem tóku gildi 1999 virðist sem mistök við lagasetningu hafi valdið því að skýr lagaheimild fyrir stimpilfrelsi þessara bréfa féll niður frekar en að þar hafi vilji löggjafans komið fram.

Niðurfelling stimpilskyldu af heimildarbréfum leiguhúsnæðis getur auðveldað félögum, meira en nú er, að ráðast í fjárfestingar sem miða að því að auka og bæta leiguhúsnæði. Íbúðalánasjóður veitir sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum, er hafa að markmiði að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, lán til byggingar eða kaupa á húsnæði til þeirra nota, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs í þessum tilgangi, sbr. VIII. kafla sömu laga, eru stimpilfrjáls, sbr. 4. tölul. 35. gr. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum. Stimpilgjalda er aftur á móti krafist af heimildarbréfum vegna þessa húsnæðis sem er umdeilanleg breyting frá fyrri framkvæmd.

Fyrir gildistöku laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, sem öðluðust gildi 1. janúar 1999, voru heimildarbréf félagslegra leiguíbúða undanþegin stimpilskyldu. Sú framkvæmd byggðist á ákvæði 4. mgr. 78. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, þar sem segir: „Eigi skal greiða stimpilgjald af afsali vegna kaupa framkvæmdaraðila á íbúð á almennum markaði, enda sé íbúð keypt í því skyni að verða félagsleg íbúð, sbr. 1. mgr. 54. gr., og kaupsamningi fylgi staðfesting Húsnæðisstofnunar þess efnis.“

Með lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, voru verulegar breytingar gerðar á húsnæðislöggjöfinni. Í 46. gr. þeirra laga, um þinglýsingu og stimpilgjöld, var kveðið á um að skuldabréf sem gefin væru út til Íbúðalánasjóðs vegna lána til byggingar eða kaupa leiguhúsnæðis, sbr. VIII. kafla laganna, væru undanþegin stimpilgjaldi en ekki getið heimildarbréfa vegna þeirra eigna. Í bráðabirgðaákvæðum laganna kom aftur á móti fram að nokkur ákvæði laga nr. 97/1993 skyldu halda gildi sínu og þar á meðal var 78. gr.

Við gildistöku laga nr. 157/1998, um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum, voru ákvæði ýmissa sérlaga, sem kváðu á um undanþágur frá stimpilskyldu, felld brott og færð í lög um stimpilgjald. Þar á meðal var ákvæði 46. gr. laga nr. 44/1998 en efnislega samhljóða ákvæði er nú að finna í 4. og 5. tölul. 35. gr. laga nr. 36/1978. Við þessar lagabreytingar skapaðist óvissa um stimpilskyldu heimildarbréfa fyrir húseignum sem voru keyptar í því skyni að vera leiguíbúðir. Sveitarfélög og félög í þeirra eigu hafa talið að heimildarbréf fyrir slíku húsnæði eigi að njóta stimpilfrelsis á grundvelli 78. gr. laga nr. 97/1993 en þeirri kröfu hefur verið hafnað af fjármálaráðuneyti á grundvelli túlkunar á 35. gr. laga nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að eyða þessari óvissu með því að bæta nýjum tölulið við 35. gr. laga nr. 36/1978 sem kveður skýrt á um stimpilfrelsi heimildarbréfa fyrir leiguhúsnæði sem Íbúðalánasjóður veitir lán til kaupa á skv. VIII. kafla laga nr. 44/1998.

Samkvæmt lögum um stimpilgjöld eru skuldabréf, sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarlána og lána til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði, stimpilfrjáls. Sama gildir um heimildarbréf vegna íbúða sem keyptar eru með viðbótarlánum. Viðbótarlán fá ákveðnir tekjuhópar og geta þau numið allt að 25% af kaupverði til viðbótar húsbréfalánum. Íbúðalánasjóður lánar þannig kaupendum íbúða, með milligöngu sveitarfélaga, allt að 90% af kaupverði á hagstæðum kjörum. Félagslegt leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga og annarra félaga sem hér um ræðir er í flestum tilfellum leigt einstaklingum sem hafa enn lægri tekjur en þeir sem fá viðbótarlán. Engin haldbær rök styðja að gerður sé greinarmunur á innheimtu stimpilgjalda af heimildarbréfum fyrir félagslegu leiguhúsnæði annars vegar og heimildarbréfum vegna kaupa á íbúðum með viðbótarlánum hins vegar. Það er tæplega vilji löggjafans að viðhalda slíkri mismunun. Stimpilgjöld auka kostnað við kaup á leiguhúsnæði sem aftur getur leitt til hærra leiguverðs.

Stimpilgjöld sem innheimt eru vegna kaupa á húsnæði geta skipt sveitarfélög, félög og félagasamtök, og þá sérstaklega þau sem smærri eru, allnokkru máli enda um nokkrar fjárhæðir að ræða. Má í því sambandi nefna að Félagsbústaðir hafa greitt frá 1. janúar 1999 til 1. janúar 2004 tæpar 20 millj. kr. í stimpilgjöld vegna leiguíbúða. Því er eðlilegt að heimildarbréf sem þinglýst er við kaup eða byggingu þessara eigna séu stimpilfrjáls.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá er það eindreginn vilji okkar að þetta frumvarp sem aðeins felur í sér þessar tvær breytingar verði samþykkt. Önnur breytingin snýr að heimildarbréfunum sem hefur verið farið svo ítarlega yfir í greinargerð með þessu frumvarpi og áður færð rök fyrir af hv. þingmanni Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók þetta mál upp á síðasta þingi, og hin felst í því að ekki séu lögð stimpilgjöld á endurfjármögnun skulda. Þetta getur skipt verulegu máli.

Þessi óréttláta skattlagning, stimpilgjöldin, bitnar, eins og hér hafa verið færð rök fyrir, fyrst og fremst á fjölskyldum sem eru að eignast þak yfir höfuðið. Þær greiða langstærstan hluta af stimpilgjöldum. En þau bitna einnig mjög illa á fyrirtækjum, sérstaklega smærri fyrirtækjum sem hafa ekki möguleika á því að ná sér í lán á erlendum lánamarkaði. Stóru fyrirtækin koma því kannski heldur betur út úr þessu. En þetta er samt sem áður óréttlátur skattur á fyrirtæki, á einstaklinga, á fjölskyldur. Ef ríkisstjórnin meinti nú eitthvað með því að vilja styðja við nýsköpun í atvinnulífi og þá kannski smærri fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref inn á vinnumarkaðnum vítt og breitt um landið þá væri að sjálfsögðu eðlilegt að fella niður stimpilgjöldin. Áhugi ríkisstjórnarinnar hins vegar er ekki til staðar þó einstaka ráðherrar hafi á hátíðarstundum lýst því yfir að þeir vilji gjarnan fella niður stimpilgjaldið. Hæstv. forseti þekkir þetta úr sinni fyrri vinnu, þ.e. nauðsyn þess að fella lög um stimpilgjöld úr gildi.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að þessi frumvörp fari til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er slæmt að hér skuli ekki vera staddur neinn þingmaður úr efnahags- og viðskiptanefnd frá stjórnarmeirihlutanum. En þetta er ekki í fyrsta skiptið sem okkur í stjórnarandstöðu er boðið upp á að tala hér fyrir tómum sölum, nema að einstaka stjórnarandstæðingur er hér að hlusta. Sýnir það að mínu mati að málefnalegri umræðu á Alþingi Íslendinga hefur hrakað. Með þeim orðum, virðulegi forseti, óska ég eftir því að þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.