131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:02]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Í Hálffimmbirtingu greiningardeildar KB-banka í gær er skýrt frá því undir fyrirsögninni „Lánshæfismat endurspeglar ekki undirliggjandi rekstur“ að matsfyrirtækið Standard & Poor’s staðfesti lánshæfismat Landsvirkjunar en endurskoði horfurnar fyrir fyrirtækið úr stöðugum í neikvæðar.

Ástæða þess að horfurnar eru endurskoðaðar er að útlit er fyrir að ríkið ætli að einkavæða Landsvirkjun. Lánshæfismat Landsvirkjunar tekur mið af skilyrðislausri ábyrgð ríkisins á skuldbindingum stofnunarinnar frekar en að rekstur stofnunarinnar sé svo traustur að hann standi undir lánshæfismatinu, segir þar. Með öðrum orðum hangir lánshæfismatið á ríkisábyrgðinni, á ábyrgð eigendanna, en byggir ekki á traustum rekstri fyrirtækisins.

Enn fremur er fjallað um það í þessari birtingu bankans að arðsemi Landsvirkjunar hafi undanfarin ár verið mjög lítil og talsvert undir verðbólgu á tilteknu viðmiðunartímabili. Fyrirtækið hefur ekki haldið í við verðlagsþróun hvað efnahag snertir. Enn fremur er vikið að því að eigi að einkavæða Landsvirkjun sé það nánast óhugsandi án þess að eiginfjárstaða félagsins verði styrkt.

Þetta staðfestir, frú forseti, að yfirlýsingar hæstvirtra ráðherra undanfarna daga hafa þegar skaðað fyrirtækið. Þetta staðfestir í öðru lagi að lánshæfismat Landsvirkjunar hangir á ábyrgð eigendanna en byggir ekki á traustum rekstri. Og þetta staðfestir í þriðja lagi það sem ég hélt hér fram í gær að til þess að hægt verði að fara í þá einkavæðingu sem ráðherrar hafa boðað verður fyrst að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins og til þess á að ná í milljarðana frá Rarik.

Hæstv. ríkisstjórn verður (Forseti hringir.) að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli, (Forseti hringir.) svo alvarlegar eru þær (Forseti hringir.) yfirlýsingar sem gefnar hafa verið og það tjón sem af þeim hefur hlotist.