131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:04]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur sjálfsagt talið sig komast í feitt þegar hann rak augun í frétt um nýja tilkynningu Standard & Poor’s um Landsvirkjun. Því miður verð ég að hryggja hann með því að hér er um storm í vatnsglasi að ræða.

Það er svo langt því frá að Standard & Poor’s sé að gefa fyrirætlunum stjórnvalda neikvæða umsögn. Fyrirtækið staðfestir lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar, það er engin breyting á lánshæfiseinkunninni. Hún er áfram AA- og horfurnar stöðugar.

Hefði fyrirtækið ætlað að breyta horfum varðandi fyrirtækið hefði það sagt horfurnar neikvæðar en ekki stöðugar. Það var ekki gert. Standard & Poor’s staðfestir lánshæfismat á útistandandi skuldum og þeirri skuldabréfaútgáfu sem fram undan er. Sá er kjarni málsins.

Það er hins vegar annar mælikvarði sem lánshæfismatsfyrirtæki leggja til grundvallar og það eru horfur fyrir Landsvirkjun sem eyland án alls utanaðkomandi stuðnings. Þetta er kallað á ensku „Corporate Credit Rating“. Standard & Poor’s metur horfur Landsvirkjunar að þessu leytinu til neikvæðar vegna þess að ríkið mun ekki taka ábyrgð á nýjum lánum ef fyrirtækið verður einkavætt. Lánshæfismatsfyrirtækið er því að gera þá skyldu sína að gefa markaðnum til kynna að það sé mikil umræða fram undan um framtíð Landsvirkjunar. Þetta eru engar nýjar fréttir. Það hefur alltaf legið fyrir að lánshæfismat Landsvirkjunar væri lægra ef ábyrgðir eigenda væru ekki til staðar. Ábyrgðir eigenda eru hins vegar til staðar og munu verða það áfram nema um annað semjist.