131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:12]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Umræður í þáskildagatíð, ég tala nú ekki um ef þær eru í viðtengingarhætti líka, verða alleinkennilegar eins og hér má heyra. Hér hafa þingmenn talað um tjón sem Landsvirkjun hafi orðið fyrir, skaða sem Landsvirkjun hafi orðið fyrir. Og hver er sá skaði, frú forseti?

Sá skaði er að Landsvirkjun nýtur enn og mun njóta óbreytts lánstrausts. Engin breyting hefur orðið á lánshæfi Landsvirkjunar. Svo koma þingmenn hver á fætur öðrum og tala um tjón sem orðið sé. Það er von að menn reki upp stór augu.

Hér er talað um að kjafta upp eða kjafta niður. Þá held ég að menn ættu líka að velta fyrir sér heyrn. Það kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra að það er staðfest að lánshæfismat Landsvirkjunar hefur ekki breyst. (Gripið fram í.) Það er hins vegar vitað, frú forseti, að Landsvirkjun stendur núna í miklum framkvæmdum. Það var vitað og gert ráð fyrir. Það þarf ekki mikla snillinga til að sjá að þegar fyrirtæki stendur í miklum framkvæmdum reynir að sjálfsögðu á fjárhaginn eins og menn gerðu ráð fyrir. En það er líka vitað, og til þess var lagt upp í þá för, að þær fjárfestingar sem Landsvirkjun stendur fyrir núna munu skila fyrirtækinu og þjóðarbúinu öllu verulegum tekjum. Um það snýst málið.

En nú er líka fróðlegt að sjá að hér hanga hinir hörðustu andstæðingar Kárahnjúka og þeirra framkvæmda sem þar eru fyrir austan á þessu síðasta hálmstrái og leyfa sér meira að segja að halla réttu máli. Lánshæfismat Landsvirkjunar er hátt og það hefur ekki breyst.