131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Lánshæfismat Landsvirkjunar.

[12:23]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn geta talað um blaður en mér varð hugsað til þess hvernig ástatt væri fyrir þessu þjóðfélagi ef þeir menn sem hér hafa talað um blaður, hv. þm. Mörður Árnason og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, færu með stjórn þessa lands. Það er hætt við því að samkeppnisstaða Íslands væri ekki sú sem hún er í dag. Við erum í fimmta sæti. Ætli það sé ekki vegna þess (Gripið fram í.) að það hefur verið haldið vel á málum af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem hér hefur farið með völdin síðustu tíu ár? (Gripið fram í.) Það er erfitt að tala til hv. þingmanna sem heyra ekki það sem maður segir, heyra ekki þegar ég segi að engin breyting hefur orðið á lánshæfismati Landsvirkjunar, engin breyting.

Þegar ég er að tala um að það verði hugsanlega árið 2008 eða síðar sem þessu fyrirtæki gæti verið breytt í hlutafélag, sem opnaði á möguleika á að nýir aðilar komi að rekstri fyrirtækisins, þá eru það ákveðin skilaboð. Þetta getur komið til greina. Þetta er langt inni í framtíðinni þannig að þegar hv. þingmenn keppast við að nota stærstu orðin um það sem ég sagði þá er það á misskilningi byggt. Þetta er ákveðin opnun og hver skilur ekki að ef til þess kæmi að þetta fyrirtæki yrði einkavætt þá yrði ekki lengur um ríkisábyrgðir að ræða og að það mundi breyta lánshæfismatinu? (Gripið fram í.) Þetta er svo augljóst.

Þeir hv. þingmenn sem hér hafa hæst eru sannarlega ekki stuðningsmenn þessa fyrirtækis. Þeir hafa alltaf fyrirlitið það, alltaf, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og allar framkvæmdir sem þar hafa átt sér stað á síðustu árum.