131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum.

511. mál
[12:26]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Stærsta ríki Afríku, Súdan, er stríðshrjáð land. Í rúma tvo áratugi hefur geisað borgarastyrjöld í suðurhluta landsins, skelfilegt stríð sem kostað hefur tvær milljónir manna lífið. Nú hefur loks tekist að stilla til friðar í Suður-Súdan og von er til þess að fólk geti tekið til við endurreisnarstarfið sem bíður þess.

Annars staðar í þessu gríðarstóra landi, í Darfúr-héraði, hefur ríkt sannkölluð vargöld undanfarin tvö ár. Íbúar héraðsins hafa einnig risið upp gegn stjórnvöldum í Khartúm eins og fólk gerði í Suður-Súdan, en Khartúm-stjórnin hefur svarað með því að siga herflokkum vígamanna, einhvers konar málaliðum sem nefnast Janjaweed, á óbreytta borgara héraðsins. Sannað er að stjórnvöld hafa útvegað þeim vopn og lengst af látið framferði þeirra óátalið. Hryllilegir stríðsglæpir hafa verið framdir af báðum fylkingum í Darfúr-héraði af Janjaweed-mönnum og uppreisnarmönnum.

Sérstök rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna, skipuð af framkvæmdastjóra þeirra, Kofi Annan, skilaði skýrslu til öryggisráðsins í liðnum mánuði. Niðurstaða hennar er að í Darfúr-héraði hafi verið framdir stríðsglæpir og að draga verði þá sem ábyrgir eru fyrir þeim fyrir dóm, fyrir Alþjóðasakamáladómstólinn í Haag.

Enginn veit nákvæmlega hversu margir hafa látið lífið í átökunum í Darfúr síðastliðin tvö ár. Margt bendir þó til þess að a.m.k. 200 þúsund manns liggi í valnum. Þriðjungur íbúa héraðsins, rúmar tvær milljónir af sex, eru á flótta í Darfúr eða nágrannaríkinu Tsjad. Illa hefur gengið að fá stjórnvöld og uppreisnarmenn til að semja um frið en viðræður hafa þó staðið yfir með tilstilli Sameinuðu þjóðanna. Og friðarsamkomulagið við suðurhluta landsins vekur vonir.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvaða afstöðu ríkisstjórn Íslands hefur til þess að draga þá sem grunaðir eru um stríðsglæpi í Darfúr fyrir Alþjóðasakamáladómstólinn en vitað er að um það standa deilur innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.