131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:46]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svör hans en hann hefur hvað mest reynt að milda áhrif uppsagna og skipulagsbreytinga hjá varnarliðinu. Hjá slökkviliðinu í Keflavík er mikil sérþekking til staðar, sérþjálfaðir menn við slökkvistörf og önnur öryggishlutverk vallarins, svo sem snjómokstur og viðbrögð vegna hemlunaraðstæðna o.fl. Flugumferðarstjórar í Keflavík telja að með breytingunum taki snjóhreinsun lengri tíma, sem er bagalegt gagnvart öryggi því oft þurfa vélar að lenda tafarlaust.

Verið er að skipta á óvönum mönnum og vönum sérþjálfuðum mönnum. Með hverri uppsögn glatast dýrmæt þekking og reynslumiklir og þjálfaðir starfsmenn hætta störfum. Ég átta mig samt sem áður á því að ákvörðunin er alfarið varnarliðsins og ekki hægt að vega að stjórnvöldum.

Frú forseti. Það sem ég staldra við í málinu varðandi þær miklu skipulagsbreytingar og uppsögnina á Keflavíkurflugvelli er hvort ekki sé mögulegt að við komum sterkar að því að sjá um ýmsa rekstrarþætti, þ.e. verktöku vegna ýmissa starfa á vellinum. Á móti fækkaði varnarliðsmönnum en Íslendingum fjölgaði og við mundum samt sem áður aðlaga okkur að fjárveitingum frá varnarliðinu miðað við langtímasamning. Þetta er að mínu mati eina sóknarfærið í þeirri varnarbaráttu sem verið hefur vegna uppsagna og skipulagsbreytinga hjá varnarliðinu.