131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Tölur um fækkun slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli þurfa náttúrlega ekki að koma á óvart í ljósi þess að við höfum mörg undanfarin ár orðið vitni að því að Bandaríkjamenn eru að skera allharkalega niður í flugflota sínum sem haft hefur bækistöðvar hér á landi. Eitt leiðir af öðru en maður hlýtur að lýsa eftir því, eins og margir hv. þingmenn hafa gert á undan mér, hvað íslensk stjórnvöld ætli sér að gera í þessum málum.

Við erum í NATO. Mér finnst persónulega að við gerum ekki nóg af því að halda merki okkar á lofti innan NATO. Við erum fullgild þjóð innan varnarsamstarfsins og mér þykir einsýnt að við ættum að reyna að leita leiða til nánara samstarfs við aðrar NATO-þjóðir fyrst Bandaríkjamenn eru svo greinilega að ganga úr skaftinu. Íslensk stjórnvöld virðast sitja og horfa á þetta með staðfestu og æðruleysi en einnig aðgerðaleysi og er það mjög slæmt. Við þingmenn hljótum að kalla eftir nánari fréttum. Hvað líður viðræðum Bandaríkjamanna og íslenskra stjórnvalda hvað varðar framtíð stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli?