131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:50]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Varðandi það mál sem í framhjáhlaupi hefur skotist inn í umræðuna og varðar vopn á Keflavíkurflugvelli hef ég ástæðu til að ætla, sem betur fer, að það sé orðið harla lítið og tómlegt um að litast í vopnageymslum hersins.

Hitt er annað mál að á undanförnum missirum hefur farið mikið magn vopna um Keflavíkurflugvöll og ég hef ástæðu til að ætla að það hafi ekki allt verið félegt sem var í lestum flugvéla sem hér hafa haft viðkomu á leið sinni til Austurlanda nær. Fækkunin er orðin mjög mikil og eðlilegt að sú spurning komi upp: Er hún ekki komin að hættumörkum vegna hins mikla borgaralega flugs sem fer um Keflavíkurflugvöll? Í öllu falli er okkar að hafa einhverja skoðun á því, ekki bara taka við upplýsingum frá bandaríska sjóhernum miðað við einhverja staðla sem þeir styðjast við og telja fullnægjandi. Er kannski ástæða til að ætla að slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli sé í því tilviki ekki látið njóta sannmælis, vegna þess að ljóst er að þarna er mjög sérstök skipan mála á ferð, þ.e. slökkviliðið hefur annast um miklu meira en algengt er að sé á völlum af svipuðu tagi og á sér sögulegar skýringar eins og menn þekkja sumir.

Áhyggjur mínar eru auðvitað fyrst og fremst bundnar við atvinnuöryggi starfsmanna sem þarna starfa og stöðuna á Keflavíkurflugvelli hvað varðar alþjóðaflug okkar og stöðu Keflavíkurflugvallar vegna millilendinga og varaflugvallarhlutverks í Norður-Atlantshafinu. Það er eitt af því sem maður horfir til sem möguleika á að nýta í framtíðinni þegar bandaríski herinn verður farinn og málið snýst um að reyna að gera sér mat úr þeirri aðstöðu sem þarna er til staðar.

Varðandi slökkviliðið er í mínum huga aðeins einföld og skýr lausn sem stendur öðrum framar í þeim efnum, að Íslendingar taki við rekstri þess og að starfsmennirnir verði starfsmenn Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Bandaríkjamenn geta þá borgað eitthvað í það púkk á meðan þeir eru hér sem verður væntanlega ekki mjög lengi.